Grindavík mætir KR í úrslitum
Grindvík tryggði sér sæti í úrslitum Powerade-bikar karla eftir sigur á Snæfelli 74-71 í Laugardalshöllinni í kvöld. Jafnræði var með liðunum framan af leik, en snemma í seinni hálfleik náðu Grindvíkingar tíu stiga forskoti. Grindvíkingar náðu að hanga á forustunni og lönduðu að lokum góðum sigri.
Damon Bailay náði tvennu fyrir Grindvíkinga. Hann skoraði 24 stig og tók 10 fráköst. Helgi Jónas Guðfinnsson kom næstur í stigaskori Grindvíkinga, en hann var með 14 stig í kvöld. Páll Axel Vilbergsson var í strangri gæslu í kvöld og skoraði aðeins 8 stig.
Hjá Snæfelli átti Hlynur Bæringsson frábæran leik. Hann skoraði 17 stig auk þess að taka 17 fráköst. Nate Brown gerði einnig 18 stig fyrir Snæfellinga, tók sex fráköst og gaf átta stoðsendingar.
Grindavík mætir því liði KR í úrslitum Powerade-bikarins og fer leikurinn fram á sunnudaginn.
Tölfræði úr leiknum.
VF-MYND/JBÓ: Helgi Jónas Guðfinnsson gerði 14 stig fyrir Grindvíkinga í kvöld.