Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík lagði BÍ/Bolungarvík
Jósef Kristinn átti stoðsendinguna sem skilaði sigurmarki Grindvíkinga
Miðvikudagur 19. ágúst 2015 kl. 04:16

Grindavík lagði BÍ/Bolungarvík

Nýr leikmaður Grindvíkinga með sigurmarkið

Grindvíkingar tóku á móti botnliði BÍ/Bolungarvíkur í gærkvöldi og fóru heimamenn með sigur af hólmi í bragðdaufum leik, 1-0. Það var nýr leikmaður heimamanna, Angel Guirado Aldeguer, sem að skoraði sigurmarkið á 78. mínútu leiksins.

Það var boðið uppá leiðindaveður í Grindavík þegar flautað var til leiks en gestirnir að vestan þurftu nauðsynlega á stigunum þremur að halda til að eiga von um að halda sæti sínu í deildinni á lífi. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindvíkingar byrjuðu leikinn betur og fengu dauðafæri á 5. mínútu leiksins þegar sóknarmaðurinn Tomislav Misura skaut yfir úr upplögðu færi eftir góðan undirbúning frá Jósefi Kristni Jósefssyni. Aðeins tveimur mínútum áður hafði Misura skorað mark sem dæmt var af vegna rangstöðu. 

Leikurinn var ekki ýkja mikið fyrir augað og litu fá færi dagsins ljós á fyrstu 45 mínútum leiksins og var staðan markalaus í hálfleik.

Heimamenn fengu frábært færi til að komast yfir á 5. mínútu síðari hálfleiks þegar hinn spænski Angel Guirado Aldeguer skallaði að marki en liðsfélagi hans, títt nefndur Tomislav Misura, stóð við marklínuna og fékk boltann í sig áður en gestirnir hreinsuðu frá marki.

Djúpmenn fengu sitt langbesta færi 20 mínútum fyrir leikslok þegar Pape Mamadou Faye komst einn í gegnum vörn Grindvíkinga en lét Maciej Majewski varði vel frá honum. Átti þetta eftir að reynast gestunum dýrkeypt mistök.

Það var svo 12 mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma sem að Grindvíkingar gerðu það sem til þurfti til að loka leiknum. Jósef Kristinn Jósefsson tók þá hornspyrnu sem rataði beint á kollinn á Angel Guirado Aldeguer sem að skallaði boltann í markið við mikinn fögnuð heimamanna.

Hvorugu liðinu tókst að skora það sem eftir lifði leiks og fóru Grindvíkingar því með öll þrjú stigin heim í kot. BÍ/Bolungarvík er svo gott sem fallið niður í 2. deild með þessum úrslitum en liðið þarf á sannkölluðu kraftaverki að halda til að snúa taflinu sér í hag.

Grindavík situr í 5. sæti deildarinnar með 27 stig þegar 5 umferðum er ólokið og verður að telja þá úr leik í baráttunni um sæti í Pepsí deildinni að ári þrátt fyrir að tölfræðilegar líkur séu fyrir hendi. 9 stig skilja að Grindvíkinga og liðið í 2. sæti og þarf því ansi margt að ganga á til að Grindvíkingar klifri upp um þrjú sæti áður en Íslandsmótið klárast.

[email protected]