Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík lá í Vesturbænum
Laugardagur 10. maí 2008 kl. 16:44

Grindavík lá í Vesturbænum

Nýliðar Grindavíkur í Landsbankadeild karla í knattspyrnu máttu sætta sig við 3-1 ósigur gegn KR í Vesturbænum í fyrstu umferð sumarsins í dag. Scott Ramsay gerði glæsilegt mark fyrir Grindavík og jafnaði metin í 1-1 en KR-ingar gerðu tvö mörk á lokasprettinum og fögnuðu 3-1 sigri í nokkuð jöfnum leik.
 
Sóknarmaðurinn Guðjón Baldvinsson reyndist Grindvíkingum erfiður strax í upphafi leiks og tvívegis strax á níu fyrstu mínútum leiksins var hann hættulegur við Grindavíkurmarkið.
 
Þegar líða tó á fyrri hálfleikinn hertu KR-ingar tökin en voru ekki að skapa sér hættuleg færi. Varnarmaðurinn Zoran Stamenic fékk gult spjald í Grindavíkurliðinu á 21. mínútu fyrir brot á Björgólfi Takefusa.
 
Heimamenn í Vesturbænum fengu nokkur fín færi í fyrri háflelik en Magnús Þormar markvörður Grindvíkinga var vel með á nótunum og því héldu liðin til háfleliks í stöðunni 0-0.
 
Grindvíkingar voru líflegir í upphafi síðari hálfleiks og á 57. mínútu fór Andri Steinn Birgisson illa að ráði sínu er hann slapp einn á móti markverði KR en honum tókst ekki að nýta færið sem var eitt það besta hingað til hjá Grindavík í leiknm.
 
Heimamenn komust í 1-0 með skallamarki frá Guðjóni Baldvinssyni á 63. mínútu leiksins og kom markið nokkuð á gang leiksins þar sem gulir höfðu verið að sækja ákaft að KR markinu en boltinn vildi ekki í netið.
 
Mark KR kom sem köld vatnsgusa á Grindavík en gestirnir voru fljótir að jafna sig og með frábærum undirbúningi tókst þeim að skora. Scott Ramsay átti þá góða sendingu út á hægri kantinn þar sem boltinn barst fyrir markið og á kollinn á Orra Frey Hjaltalín sem skallaði út í teiginn á Ramsay sem þrumaði tuðrunni í netið, óverjandi fyrir Kristján Finnbogason í markinu. Staðan 1-1 og fagnaði Ramsay marki sínu vel og innilega en markið kom á 78. mínútu.
 
Grindvíkingar náðu ekki að halda dampi og tvívegis tókst KR að skora á lokamínútum leiksins en það voru tveir varamenn úr röðum KR sem gerðu mörkin, þeir Ingimundur Óskarsson og Guðmundur Pétursson. Lokatölur því 3-1 eins og fyrr greinir en Grindvíkingar sýndu góða spretti á köflum en náðu ekki að ljúka leik af sama krafti og þeir höfðu leikið á fyrstu 75 mínúturnar.
 
63. mín: Guðjón Baldvinsson 1-0
78. mín: Scott Ramsay 1-1
83. mín: Guðmundur Pétursson 2-1
89. mín: Ingimundur Óskarsson 3-1
 
Byrjunarlið Grindavíkur í leiknum
Magnús Þormar, markvörður, Ray Jónsson, Scott Ramsay, Marinko Skaricic, Andri Steinn Birgisson, Jóhann Helgason, Tomaz Stolpa, Eysteinn Húni Hauksson, Orri Freyr Hjaltalín, Zoran Stamenic og Sveinn Þór Steingrímsson.
 
Byrjunarlið KR í leiknum
Kristján Finnbogason, markvörður, Grétar Sigfunnur Sigurðarson, Gunnlaugur Jónsson, Jónas Guðni Sævarsson, Guðjón Baldvinsson, Óskar Örn Hauksson, Björgólfur Takefusa, Viktor Bjarki Arnarson, Gunnar Örn Jónsson, Guðmundur Reynir Gunnarsson og Eggert Rafn Einarsson.
 
VF-Mynd/ [email protected]Scott Ramsay fagnar marki sínu á KR velli í dag en fögnuður Grindvíkinga stóð skammt í dag.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024