Grindavík í undanúrslit þrátt fyrir tap
Grindavíkurstúlkur eru komnar í undanúrslit í Hópbílabikar kvenna þrátt fyrir tap, 60-62, í kaflaskiptum leik gegn Njarðvík í gær. Grindavík vann fyrri leik liðanna með 4 stiga mun.
Ungt og lítt reynt lið Njarðvíkur hefur komið á óvart í undanförnum leikjum og sýndi það í gær að þær geta sannarlega staðið í sterkari liðum deildarinnar.
Grindavík, sem spilaði á heimavelli, byrjaði mun betur og var komið með 9 stiga forskot, 24-15 eftir fyrsta leikhluta, en þá hrukku gestirnir frá Njarðvík í gang. Þær skelltu í lás í vörninni og voru komnar með eins stigs forskot í hálfleik, 33-34.
Í þriðja fjórðungi snerist leikurinn aftur við og heimastúlkur náðu frumkvæðinu á nýjan leik. Þær leiddu með 8 stigum, 52-44, þegar haldið var í lokakaflann en þá varð enn einn viðsnúningurinn.
Grindvíkingar skoruðu aðeins 8 stig í síðasta fjórðungi og voru heppnar að halda tapinu í aðeins tveimur stigum.
Í kvöld mætir Keflavík Breiðabliki, en þær unnu fyrri leikinn með 89 stiga mun.
Mynd úr safni