Grindavík í öðru sæti 2. deildar kvenna
Kvennalið Grindavíkur lék í gær gegn sameinuðu liði Fjarðabyggðar, Hattar og Leiknis í 2. deild kvenna. Leikurinn fór fram í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði. Fyrir leikinn var Grindavík í þriðja sæti deildarinnar en með sigri komust þær í annað sæti, upp fyrir Hamrana sem töpuðu fyrir toppliði HK. Grindavíkurstelpurnar eiga leik til góða á Hamrana.
Grindavík tefldi fram tveimur nýjum leikmönnum, markverðinum Margréti Ingþórsdóttur og sóknarmanninum Melkorku Ingibjörgu Pálsdóttur. Þær byrjuðu vel í sínum fyrsta leik því Margrét hélt markinu hreinu og það var svo Melkorka sem skoraði sigurmark Grindvíkinga á lokamínútum leiksins (87').
Grindavík er nú, þegar deildin er hálfnuð, í öðru sæti 2. deildar kvenna með sextán stig og eiga leik til góða á Hamrana sem eru í þriðja sæti með fjórtán stig.