Grindavík í fallsæti eftir tap
Grindvíkingar eru í 9. sæti Landsbankadeildarinnar eftir 2-1 tap gegn Fram í kvöld.
Grindvíkingar geta nagað sig í handarbökin eftir leikinn því þeir voru í stanslausri sókn allan seinni hálfleikinn.
Framarar komust yfir á 22. mínútu þegar Ríkharður Daðason skoraði úr vítaspyrnu. Ekki voru allir á eitt sáttir við dóminn en honum varð ekki haggað og Framarar komnir yfir.
Sinisa Kekic gerði sig sekan um varnarmistök á 30. mín sem Andri Fannar Ottósson nýtti sér til að skora annað mark Framara og breytti stöðunni í 2-0.
Eftir það tóku Grindvíkingar stjórnina í leiknum og minnkuðu loks muninn rétt fyrir leikhlé með marki frá Grétari Hjartarsyni.
Seinni hálfleikur var eign Grindvíkinga frá upphafi til enda en þeir náðu þó ekki að nýta sér það. Þeir sköpuðu sér ekki mörg færi og var varnarveggur Frammara þéttur og Gunnar Sigurðsson í markinu átti einnig góðan leik.
Nú eru Grindvíkingar komnir í fallsæti og má ekkert útaf bera í síðustu fimm leikjunum sem eftir eru. Næsti leikur er á sunnudag gegn KA á heimavelli.
VF-mynd úr safni