Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Grindavík í 8-liða úrslit VISA-bikarsins
Fimmtudagur 3. júlí 2008 kl. 00:38

Grindavík í 8-liða úrslit VISA-bikarsins

Grindavík komst í 8-liða úrslit VISA-bikars karla í knattspyrnu með sigri á Reyni í kvöld, 1-2, á Sparisjóðsvellinum. Á samam tíma féllu Víðismenn úr leik með tapi gegn úrvalsdeildarliði Fylkis, 1-4, á Garðsvelli.
 
Mörk gestanna úr Grindavík komu í fyrri hálfleik þar sem Andri Steinn Birgisson skoraði strax í upphafi leiks og hinn ungi og efnilegi Jósef Jósefsson skoraði seinna markið á 40. mínútu eftir laglegan sprett.
 
Spenna hljóp í leikinn á lokamínútunum þar sem Anton Ingi Sigurðsson minnkaði muninn á 87. mínútu, en allt kom fyrir ekki.
 
Reynismenn átti góðan leik þar sem þeir gáfu Grindvíkingum ekkert eftir þó tvær deildir væru á milli liðanna. Þeir mættu ákveðnir til leiks en máttu engu að síður sætta sig við tap.
Á Garðvelli mætti hið brokkgenga lið Fylkis og atti kappi við heimamenn sem eru í toppbaráttu 2. deildar.
 
Í fyrri hálfleik var lengst af jafnræði með liðunum. Fylkismenn skoruðu hins vegar fyrsta markið en þar var að verki Kjartan Ágúst Breiðdal sem smellhitti knöttinn af löngu færi og skoraði laglegt mark.
 
Víðismenn voru aldeilis ekki af baka dottnir þrátt fyrir markið og sóttu stöðugt í sig veðrið. Þeir settu þunga pressu á varnarlínu Fylkis og sóttu án afláts. Það bar svo ávöxt á 36. mínútu þegar Atli Rúnar Hólmbergsson jafnaði með skoti úr teig eftir glæsilega sókn.
 
Útlitið var ekki sem bjartast fyrir úrvalsdeildarliðið en það breyttist fljótlega í seinni hálfleik. Kjartan Andri Baldvinsson kom þeim aftur yfir á 56. mínútu, Hermann Aðalgeirsson jók muninn í 3-1 á 71. mínútu og það var svo Kjartan Andri sem innsiglaði sigurinn fimm mínútum síðar.
 
Á morgun lýkur 16-liða úrslitum en þar ber hæst risaslag Keflavíkur og FH á Sparisjóðsvellinum í Keflavík. Sá leikur hefst kl. 19.15.
Vf-myndir/Þorgils - Úr leikjum kvöldins
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024