Grindavík hefur misst fimm leikmenn frá síðustu leiktíð
- Enginn leikmaður farinn frá Keflavík
Tvö Suðurnesjalið leika í Pepsi- deildinni í knattspyrnu næsta sumar, Grindavík og Keflavík og verður spennandi að sjá nágrannaslagina þeirra á fótboltavellinum þegar tímabilið hefst. Liðin hafa verið að styrkja sig á undanförnum mánuðum en Grindavík hefur misst samtals fimm leikmenn frá því á síðasta tímabili og meðal annars Andra Rúnar sem var markahæsti leikmaður Pepsi- deildarinnar. Hér að neðan má sjá hvaða leikmenn eru komnir, farnir og samningslausir í Pepsi-deild karla og Inkasso deildinni en Njarðvíkingar leika þar á næstu leiktíð.
Grindvíkingar hafa verið að gera það gott á undirbúningstímabilinu og komust meðal annars í úrslit í Fótbolta.net mótinu á dögunum í A-deild þar sem að þeir kepptu á móti Stjörnunni og enduðu í öðru sæti. Fimm leikmenn hafa farið frá félaginu frá því á síðasta tímabili en þeir eru: Andri Rúnar Bjarnason í Helsingborg , Aron Freyr Róbertsson í Keflavík , Gylfi Örn Á Öfjörð í ÍR , Magnús Björgvinsson og Milos Zeravica til Borac Banja Luka. Tveir leikmenn eru komnir til Grindavíkur en það eru þeir Aron Jóhannsson frá Haukum og Jóhann Helgi Hannesson frá Þór.
Þá er Maciej Majewski samningslaus.
Keflavík hefur náð að halda sínum hóp frá því í fyrra og hefur enginn leikmaður farið frá félaginu en eins og kemur fram hér að ofan kom Aron Freyr Róbertsson frá Grindavík. Einn leikmaður er samningslaus, Aron Elís Árnason.
Njarðvík hefur styrkt sig frá því í fyrra og hafa þrír leikmenn komið úr nágrannaliðum, en þeir eru: Helgi Þór Jónsson frá Víði Garði, Sigurbergur Bjarnason frá Keflavík og
Unnar Már Unnarsson frá Víði Garði. Einn leikmaður er farinn, Gualter Aurelio Oliveira Bilro til Portúgal. Enginn leikmaður er samningslaus hjá Njarðvík.