Grindavík grátlega nálægt Íslandsmeistaratitlinum
Grindavík komst grátlega nálægt því að hampa Íslandsmeistaratitlinum í körfuknattleik, eftir úrslitaeinvígi við KR. KR-ingar höfðu betur, 84-83 í æsispennandi leik í DHL-höllinni, þar sem Grindavík gat tryggt sér sigurinn í lokasókninni. Þeim tókst hins vegar ekki að skora og því fögnuðu KR-ingar titlinum í ár.
KR byrjaði leikinn betur í kvöld voru alltaf skrefi á undan. Mestur varð munurinn rúm 15 stig um miðbik annars fjórðungs, en Jakob Sigurðsson og Jón Arnór Stefánsson voru svo sannarlega heitir fyrir KR-inga í kvöld. Grindvíkingar náðu að saxa á forskotið áður en flautað var til hálfleiks, en þá var staðan 50-44 fyrir heimamenn.
KR var með yfirhöndina í leiknum allt þar til að Grindavík náði að minnka munninn niður í eitt stig þegar Nick Bradford skoraði tvo af sínum 33 stigum, og ein mínúta var til leiksloka. Helgi Magnússon í KR reyndi við þrist þegar um 40 sekúndur voru eftir en skotið geigaði. KR náði hins vegar frákastinu en náði ekki að gera sér mat úr sókninni.
Grindavík fékk boltann þegar um 25 sekúndur voru eftir og héldu af stað í lokasókn leiksins. Brenton Birmingham var umkringdur KR-ingum þegar um fjórar sekúndur voru eftir og missti hann boltann í hendur KR-ingar sem þar með voru orðnir Íslandsmeistarar árið 2009.
Grindavík hefur ekki komist svona nálægt Íslandsmeistaratitlinum í mörg ár og er ljóst að það verður erfitt að fyrir Grindvíkinga að sofna í kvöld. Þeir geta hins vegar verið stoltir af sinni frammistöðu enda eina liðið sem hafði erindi sem erfiði geng fantasterku liði KR í vetur.
Nick Bradford var atkvæðamestur í liði Grindavíkur með 33 stig og sex fráköst. Páll Kristinsson var með 13 stig og Brenton Birmingham með 12 stig og 9 stoðsendingar. Hjá KR var Jón Arnór Stefánsson með 23 stig og Jakob Sigurðsson með 22.
Smella hér til að sjá tölfræði úr leiknum.
VF-MYNDIR/JJK