Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík gerði jafntefli í Garðabænum
Sunnudagur 27. maí 2018 kl. 21:10

Grindavík gerði jafntefli í Garðabænum

Grindavík mætti stjörnunni í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld og endaði leikurinn  með 1-1 jafntefli liðanna. Grindavík gerði eina breytingu á liði sínu frá síðasta leik en Maciej Majewski stóð á milli stanganna í stað Kristijan Jajalo.

Leikurinn byrjaði rólega, Stjarnan sótti frekar stíft að marki Grindavíkur en skipulögð og þétt vörn Grindavíkur stöðvaði heimamenn. Grindavík skoraði fyrsta mark leiksins á 32. mínútu þvert gegn gangi leiksins en René Joensen smellti boltanum í netið og skoraði þar með sitt þriðja mark í sumar. Stjarnan hélt enn áfram að sækja hart að marki Grindavíkur en Grindavík gaf ekkert eftir og þétti vörnina enn betur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stjarnan átti 13 marktilraunir í fyrri hálfleik á móti 3 hjá Grindavík, Stjarnan fékk 8 horn á móti 2 hjá Grindavík og gestirnir frá Grindavík leiddu með einu marki gegn engu í hálfleik.

Jón Ingason fékk gult spjald á 51. mínútu og Stjarnan hélt áfram að pressa að marki Grindavíkur þegar seinni hálfleikur hófst. Markmaður Grindvíkinga stóð vaktina vel í markinu en Stjarnan sótti og átti nokkur dauðafæri og á 63. mínútu var staðan 22-5 í marktilraunum.
Sito fór út af á 66. mínútu og Alexander Veigar Þórarinsson kom í hans stað.

Milan Stefán Jankovic, aðstoðarþjálfari Grindavíkur fékk rautt spjald þegar hann mótmælti dómgæslu og sparkaði vatnsbrúsa inn á völlinn, hann baðst afsökunar en Guðmundur Ársæll, dómari leiksins vísaði honum beint upp í stúku.

Macej Majewski, markmaður Grindavíkur fékk gult spjald á 76. mínútu fyrir að vera of lengi að taka útspark. Aron Jóhannsson fór út af á 78. mínútu og Jóhann Helgi Hannesson kom inn á. Stjarnan jafnaði metin á 79. mínútu með marki frá Guðmundi Steini Hafsteinssyni.
Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur fékk gult spjald fyrir mótmæli á 81. mínútu.

Grindavík fékk tvær hornspyrnur í röð sem þeir nýttu ekki á 87. mínútu, Jóhann Helgi Hannesson fékk að líta gula spjaldið á 88. mínútu fyrir að stöðva skyndisókn eftir hornspyrnu. Bæði lið sóttu að marki andstæðinganna undir lokin og ætluðu sér öll þrjú stigin úr leiknum. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli og er Grindavík með 11 stig þegar sex umferðum er lokið í Pepsi-deildinni.

Mörk leiksins:
0-1 René Joensen ('32)
1-1 Guðmundur Steinn Hafsteinsson ('79)