Grindavík gerði jafntefli í fyrsta leik
Grindavík lék í gær á Framvellinum í fyrstu umferð Lengjudeildar kvenna í knattspyrnu. Grindavík fékk draumabyrjun þegar fyrirliðinn Una Rós Unnarsdóttir kom þeim yfir á 2. mínútu eftir hornspyrnu.
Fram jafnaði leikinn á 25. mínútu og virtust eflast við það. Nokkrum mínútum síðar komust Framkonur yfir (33') með glæsilegu langskoti sem var algerlega óverjandi fyrir Heiðdísi Emmu Sigurðardóttur í marki Grindavíkur.
Í blálok fyrri hálfleiks braut nýjasti leikmaður Grindavíkur, varnarmaðurinn Dominiqe Evangeline Bond-Flasza, harkalega af sér í teig Grindvíkinga og fékk að líta gula spjaldið auk þess að Fram fékk vítaspyrnu. Heiðdís varði vítaspyrnuna í stöng og því var aðeins eins marks munur þegar blásið var til leikhlés (2:1).
Fátt markvert gerðist í seinni hálfleik þar til á 83. mínútu þegar Jada Lenise Colbert brunaði upp kantinn, hún átti fyrirgjöf sem fór af varnarmanni Fram og í netið. Grindaík búiði að jafna leikinn í 2:2.
Jada var svo aftur á ferðinn í uppbótartíma og hefði getað tryggt sigurinn þegar Grindavík náði góðri skyndisókn, boltinn barst til Jada sem var ein í vítateignum en skot hennar fór rétt framhjá markinu.