Grindavík fékk mark á sig með síðustu snertingu leiksins
Í gær mættu Grindvíkingar Gróttu þar sem Sigurður Bjartur Hallsson þeim yfir á 24. mínútu. Gróttumenn jöfnuðu hins vegar leikinn skömmu síðar (33') og staðan því orðin jöfn hélst þannig allan síðari hálfleik en þegar komið var í uppbótartíma skoruðu Gróttumenn sigurmarkið á síðustu sekúndum leiksins (90'+4). Ótrúlega svekkjandi tap hjá Grindavík sem er áfram í sjöunda sæti Lengjudeildar karla, víðs fjarri þeim markmiðum sem voru sett fyrir mót.
Grindvíkingum hefur gengið bölvanlega á síðari hluta Lengjudeildarinnar, eftir að hafa tapað aðeins tveimur leikjum í fyrstu tólf umferðum tímabilsins komu fjórir tapleikir í röð. Sigur hafðist loks í sautjándu umferð þegar Grindavík bar sigurorð af Þrótti Reykjavík en svo kom enn einn tapleikurinn í gær.
Víkurfréttir ræddu við aðalmarkaskorara Grindvíkinga, Sigurð Bjart Hallsson, fyrir leikinn í gær en hann hefur staðið upp úr í Grindavíkurliðinu í sumar. Sigurður hefur skorað ríflega helming marka Grindavíkur og lagt sig áberandi mikið fram í leikjum liðsins, er sannkallaður vinnuhestur.
Við ætlum að klára mótið með sæmd
Þegar Grindvíkingar höfðu loks sigur í deildinni, í sautjándu umferð, og þeir unnu Þróttara kom sigurinn með tveimur mörkum frá Sigurði Bjarti sem hefur átt góðu tímabili að fagna með Grindavík og verið iðinn við markaskorun.
„Það var kominn tími á sigur,“ segir Sigurður í spjalli við Víkurfréttir. „Eftir tvo mánuði án sigurs var það löngu orðið tímabært. Þetta tímabil hefur orðið okkur mikil vonbrigði því við settum stefnuna á að fara upp – það yrði afskaplega mikið afrek ef við færum upp úr þessu.“
Þú hefur staðið þig vel í sumar og skorað rúmlega helming marka Grindavíkur. Hvernig finnst þér tímabilið hafa komið út hjá þér sjálfum?
„Ég er persónulega mjög ánægður með það en náttúrlega ekki ánægður með hversu fáum stigum við höfum safnað, markmiðið var auðvitað að fara upp – alla vega var það mitt markmið.
Eftir að hafa gert skítajafntefli gegn Kórdrengjum þá fylgdu fjögur jafntefli í kjölfarið og svo bara hrundi þetta hjá okkur.“
Hvernig var leikurinn gegn Þrótti, var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda?
„Eftir að hafa horft á leikinn aftur þá fannst mér við eiginlega betri allan leikinn. Þeir sköpuðu sér engin færi, skoruðu eitt mark og reyndu svo að halda því. Þeir björguðu þrisvar á línu í fyrri hálfleik eftir að þeir komust yfir, við vorum frekar lélegir í byrjun en svo fórum við að sækja í okkur veðrið eftir að hafa lent undir. Það var ekki fyrr en við komumst yfir að þeir fóru að reyna að sækja eitthvað.“
Hafa einhver lið verið að sýna þér áhuga?
„Ekki hérna heima, það er voða lítið að gerast. Kannski eru liðin að bíða og sjá hvort þau séu halda sér í deildinni, fara upp eða bara klára tímabilið og fara svo að spá í leikmenn.“
Hefur þú sjálfur áhuga á að spila í efstu deild eða jafnvel úti?
„Já, aðalmarkmiðið er að fara út. Það er númer eitt, tvö og þrjú.“
Hvernig ætlið þið að klára mótið?
„Við ætlum náttúrlega að reyna að enda eins ofarlega og við getum – og reyna að ljúka því með sæmd. Það segir sig sjálft að þótt við förum ekki upp er miklu skemmtilegra að enda í þriðja, fjórða sæti en í níunda eða tíunda.“