Grindavík er komið í efstu deild
Hroki Njarðvíkinga módiveraði okkur
Mögnuðum úrslitum lauk í kvöld með sigri Grindavíkur á Njarðvík í úrslitaleik 1. deildar kvenna. Grindavík tapaði tveimur fyrstu leikjunum en þær efldust við hverja raun og unnu þrjá síðustu leikina og tryggðu sér sæti í efstu deild á næsta ári.
Njarðvík - Grindavík 68:75 (16:20, 24:25, 13:17, 15:13)
Ólíkt fyrri leikjum liðanna þá leiddi Grindavík eftir fyrsta leikhluta sem var þó nokkuð jafn (16:20).
Í öðrum leikhluta hélt baráttan áfram og bæði lið gáfu allt sitt í leikinn. Grindvíkingar náðu tíu stiga forystu (23:33) en þá áttu Njarðvíkingar góða rispu og minnkuðu muninn í tvö stig (31:33). Grindavík bætti þá í og hafði fimm stiga forystu í hálfleik (40:45).
Grindvíkingar mættu gríðarlega ákveðnar til seinni hálfleiks og juku snemma forystu sína í 42:55. Ekkert gekk hjá Njarðvík á þessum tíma en allt rataði ofan í hjá Grindvíkingum. Eftir þriðja leikhluta var útlitið gott fyrir Grindavík sem leiddi 53:62.
Njarðvík sótti fast að Grindvíkingum í fjórða leikhluta og minnkuðu muninn í þrjú stig (63:66) en Grindvíkingar hleyptu þeim nær og enduðu leikinn með sjö stiga sigri og tryggja sér deildarmeistaratitilinn.
Natalía Jenný Lukic Jónsdóttir var með sautján stig í leiknum, öll í fyrri hálfleik, og tíu fráköst og Janno Jaye Otto skoraði 23 og átti fjórtán fráköst. Í liði Njarðvíkur var það Chelsea Nacole Jennings sem dró vagninn með 25 stig, tólf fráköst og átta stolna bolta.
Bæði lið leika í efstu deild að ári
Á vefmiðlinum Karfan.is kemur fram að bæði Grindavík og Njarðvík muni leika í efstu deild að ári en Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambandsins, staðfesti það við Karfan.is í kvöld að Njarðvík yrði einnig boðið sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Hroki Njarðvíkinga módiveraði okkur
Ólöf Helga Pálsdóttir, þjálfari Grindvíkinga, var að vonum ánægð í leikslok og sagði í viðtali við Víkurfréttir að eftir að hafa tapað tveimur fyrstu leikjunum hafi líklega enginn annar en þær haft trú á að Grindavík myndi sigra einvígið: „Hroki Njarðvíkur hjálpaði okkur mjög mikið í módiveringu og við vorum búin að prenta út orðin þeirra og vildum bara gefa þeim smá sneið af auðmýkt.“
Ólöf sagðist mjög stolt af stelpunum sínum og það skipti ekki máli hvernig maður byrji mót heldur hvernig maður klárar þau. Viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan.
Frammistaða Njarðvíkinga: Chelsea Nacole Jennings 25/12 fráköst/8 stolnir, Helena Rafnsdóttir 14/10 fráköst, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 11, Kamilla Sól Viktorsdóttir 8/4 fráköst, Krista Gló Magnúsdóttir 5, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 3, Vilborg Jónsdóttir 1/7 stoðsendingar, Þuríður Birna Björnsdóttir 1, Júlia Scheving Steindórsdóttir 0, Lovísa Bylgja Sverrisdóttir 0, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Eva María Lúðvíksdóttir 0.
Frammistaða Grindvíkinga: Janno Jaye Otto 23/14 fráköst, Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir 17/10 fráköst, Hekla Eik Nökkvadóttir 14, Hulda Björk Ólafsdóttir 12/5 fráköst, Jenný Geirdal Kjartansdóttir 6/5 fráköst, Arna Sif Elíasdóttir 3, Sædís Gunnarsdóttir 0, Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir 0/4 fráköst, Anna Margrét Lucic Jónsdóttir 0, Edda Geirdal 0, Emilía Ósk Jóhannesdóttir 0, Aþena Þórdís Ásgeirsdóttir 0.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók meðfylgjandi myndir.