Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík deildarmeistari í 1. deild kvenna
Mánudagur 19. mars 2012 kl. 10:52

Grindavík deildarmeistari í 1. deild kvenna

- mæta KFÍ í úrslitum um sæti í úrvalsdeild



Í gær áttust við Grindavík og KFÍ í uppgjöri efstu liða í 1. deild kvenna í körfubolta. Þetta var seinasti leikurinn í 1. deild kvenna áður en úrslitakeppnin hefst og ljóst var að Grindavíkurstúlkur voru orðnar deildarmeistarar óháð því hvernig leikurinn færi. Hannes Jónsson, formaður KKÍ, var því mættur á hliðarlínuna með deildarmeistaratitilinn sem afhenda átti liði Grindavíkur í lok leiksins.

KFÍ stelpur byrjuðu leikinn betur og var staðan 10-14 fyrir KFÍ í lok fyrsta leikhluta og voru Sólveig Helga Gunnlaugsdóttir (6 stig) og Svandís Anna Sigurðardóttir ( 7 stig) að bera uppi sóknarleik KFÍ en Jeanne Sicat var með 5 stig fyrir Grindavík. KFÍ-stelpur héldu áfram að auka forskot sitt í 2. leikhluta og voru ávallt skrefi á undan Grindavík og í hálfleik var staðan 20-29 fyrir KFÍ. Stigahæstar í hálfleik voru hjá KFÍ, Sólveig Helga og Svandís, báðar með 11 stig og hjá Grindavík var Jeanne og Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir með 5 stig hvor.

Ljóst var að Jóhann Ólafsson hafði hvatt Grindavíkurstelpurnar áfram í hálfleik en þær mættu mjög öflugar til leiks í þriðja leikhluta. Þrátt fyrir það áttu þær mjög erfitt með að brjóta niður sterka svæðisvörn KFÍ. Þær unnu þó leikhlutann 13-10 og staðan fyrir lokaleikhlutann því 33-38 og spennan farin að aukast. Sama barátta hélt áfram í fjórða leikhluta og leit út fyrir að KFÍ myndi fara með sigur að hólmi. En í stöðunni 39-45 þegar rúmlega 6 mínútur lifðu af leiknum fóru Grindavíkurstelpur á flug, pressan fór að ganga betur og þær fengu auðveldari körfur í kjölfarið. Á meðan allt gekk upp hjá Grindavík var ljóst að þreytan var farin að segja til sín hjá KFÍ sem voru að spila sinn þriðja leik þessa helgi. Grindavíkurstelpur unnu fjórða leikhlutann 27-13 og skoraði KFÍ aðeins 6 stig seinustu 6 mínútur leiksins gegn 21 stigi hjá Grindavík.

Hjá Grindavík var Jeanne Sicat með 16 stig og 4 stoðsendingar, Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir með 13 stig, Berglind Anna Magnúsdóttir með 10 stig og 12 fráköst, og Ingibjörg Sigurðardóttir með 10 stig. Þessar stelpur ásamt Jóhönnu Rún Styrmisdóttur báru af í liði Grindavíkur.

Hjá KFÍ voru það reynsluboltarnir Sólveig Helga Gunnlaugsdóttir (14 stig og 8 fráköst) og Svandís Anna Sigurðardóttir (13 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar) sem báru uppi leik liðsins. Auk þess átti Hafdís Gunnarsdóttir góðan seinni hálfleik (12 stig og 4 stoðsendingar) og Eva Margrét Kristjánsdóttir átti góðan fyrri hálfleik (8 stig)

Leikurinn var einstaklega skemmtilegur og flottur körfubolti sem var í boði fyrir áhorfendur. Liðin eru mjög ólík en Grindavíkurliðið er mjög ungt og mikið um snögga leikmenn meðan fjórir leikmenn í byrjunarliði KFÍ eru það sem flokka má undir reynslubolta í kvennakörfubolta. Körfuboltaáhugamenn eru hvattir til þess að mæta á leiki þessara liða í úrslitakeppninni og ef spilamennskan verður eins og um helgina ætti engin að verða fyrir vonbrigðum.

Texti og mynd: Bryndís Gunnlaugsdóttir/Karfan.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024