Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík byrjar Lengjudeildina á góðum útisigri
Guðjón Pétur Lýðsson skoraði frábært mark beint úr aukaspyrnu.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 6. maí 2023 kl. 09:55

Grindavík byrjar Lengjudeildina á góðum útisigri

Njarðvík sótti stig á Seltjarnarnesið

Grindvíkingar gerðu góða ferð upp á Skaga með góðum sigri á ÍA í gær í þegar Lengjudeild karla í knattspyrnu hófst. Njarðvík gerði jafntefli við Gróttu í sömu deild en Þróttur tapaði stórt fyrir Haukum í 2. deild.


Lengjudeild karla:

ÍA - Grindavík 0:2

Grindvíkingar fengu óskabyrjun þegar þeir sendu bolta inn fyrir vörn ÍA og Dagur Ingi Hammer Gunnarsson fylgdi vel á eftir. Markvörður Skagamanna kom út í boltann en hikaði og það nýtti Dagur fullkomlega, komst framhjá honum og skoraði í autt markið (4').

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eftir tæplega hálftíma leik sóttu Grindvíkingar að vörn Skagamanna og þar var brotið á Óskari Erni Haukssyni rétt utan teigs. Aukaspyrna á stórhættulegum stað.

Þeir Óskar og Guðjón Pétur Lýðsson stilltu sér upp við boltann en það var Guðjón sem tók spyrnuna og smellti boltanum yfir varnarvegg ÍA og í samskeytin, stórkostlegt mark hjá Guðjóni og óverjandi fyrir markvörð ÍA (27').

Fleiri urðu mörkin ekki og Grindavík hefur mótið á sterkum sigri.


Lengjudeild karla:

Grótta - Njarðvík 1:1

Marc McAusland skoraði sambærilegt mark og seinna mark hans í bikarsigri á KFA.

Njarðvíkingar lentu undir eftir um hálftíma leik þegar sóknarmaður Gróttu fékk góða stungusendingu inn fyrir vörnina og þurfti aðeins að stýra boltanum framhjá Robert Blakala í marki Njarðvíkur (32').

Mikið jafnræði var á með liðunum og þetta var mikill baráttuleikur. Þegar líða tók á leikinn færðist meiri harka í hann og var einn leikmanna Gróttu nærri því að fá rautt spjald eftir ljótt brot á Hreggviði Hermannssyni en slapp með viðvörun, þetta hleypti illu blóði í Njarðvíkinga sem voru undir.

Þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum sótti Njarðvík upp vinstra megin og sendu boltann inn í teig Gróttu, vörn heimamanna náði ekki að hreinsa fyrirgjöfina frá og boltinn barst fyrir fætur fyrirliðans Marc McAusland sem þakkaði pent fyrir sig með viöstöðulausu skoti og jafnaði leikinn í 1:1 (78') sem urðu lokatölur.


2. deild karla:

Haukar - Þróttur 4:1

Þróttarar komust yfir eftir aðeins tveggja mínútna leik með marki Kára Sigfússonar (2'). Þeir héldu forystunni út fyrri hálfleik en rétt fyrir lok hans var Ólafi Erni Eyjólfssyni vikið af velil (41') og það átti eftir að draga dilk á eftir sér.

Haukar jöfnuðu leikinn á 60. mínútu og komust yfir fjórum mínútum síðar (64'). Vængstífðir Þróttarar voru yfirspilaðir og heimamenn skoruðu þriðja mark sitt á 72. mínútu. Þeir innsigluðu sigurinn með fjórða markinu á 86. mínútu og þar við sat.

4:1 tap í fyrsta leik er alls ekki í takt við markmið Þróttara sem setja stefnuna aftur á Lengjudeildina.


Leiki Lengjudeildarinnar má sjá í beinum útsendingum á YouTube-rás Lengjudeildarinnar í sumar en hér að neðan er leikur ÍA og Grindavíkur sem sýndur var á ÍATV