Grindavík bætir við sig nýjum leikmönnum
Knattspyrnudeild Grindavíkur hefur borist liðsauki fyrir átök næsta sumars. Þegar hefur vf.is fjallað um vistaskipti Orra Freys Hjaltalín en nú hafa Snorri Birgisson og Hafsteinn Rúnar Helgason einnig flutt sig um set.
Hafsteinn Rúnar flyst félagaskiptum úr Reyni úr Sandgerði. Hann er 18 ára að aldri en hefur enngu að síðar verið fastamaður hjá Reyni að undanförnu. Hann spilaði m.a. alla leiki liðsins í 3. deildinni í sumar og skoraði í þeim 4 mörk.
Snorri er 19 ára markmaður, borinn og barnfæddur Keflvíkingur sem hefur að undanförnu verið á mála hjá Víkingi í Reykjavík þar æfði hann með 2. flokki. Þjálfari hans þar var Zeljko Sankovic, sem nú hefur tekið við þjálfun Grindavíkur og taldi Snorra á að fylgja sér þangað. Snorri hefur leikið allmarga ungmennalandsleiki fyrir Íslands hönd og vitað var til þess að mörg erlend félög höfðu áhuga á að fá hann í sínar raðir fyrir nokkrum misserum.
Þannig hafa Grindvíkingar bætt við sig þremur stóefnilegum leikmönnum sem ættu að styrkja liðið til lengri tíma litið.