Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

  • Grindavík aftur á toppinn með stæl
    Rodrigo Gomes fagnar fyrsta marki Grindavíkur í kvöld. VF-mynd: Hilmar Bragi
  • Grindavík aftur á toppinn með stæl
    Fögnuður Grindvíkinga var mikill. VF-myndir: Hilmar Bragi
Fimmtudagur 2. júní 2016 kl. 22:53

Grindavík aftur á toppinn með stæl

– komnir með 12 stig eftir 5 leiki.

Grindvíkingar eru komnir á toppinn að nýju í 1. deildinni í knattspyrnu karla eftir stórsigur á Leikni úr Reykjavík á Grindavíkurvelli í kvöld. Lokastaðan 4:0 fyrir heimamenn sem voru mun sterkara liðið í þessum toppslag 1. deildarinnar.

Rodrigo Gomes skoraði fyrsta mark Grindavíkur eftir rúmlega hálftíma leik eftir mikinn darraðadans í vítateig gestanna. Rodrigo skaut fyrst í stöng en tók sjálfur á móti frákastinu og sendi knöttinn í netið áður en hann hljóp til ljósmyndara Víkurfrétta til að fagna markinu, eins og sjá má í myndasafninu hér neðan við fréttina.

Staðan var 1:0 í hálfleik fyrir Grindavík. Í síðari hálfleik tóku Grindvíkingar öll völd á vellinum og áður en yfir lauk voru mörk heimamanna orðin fjögur. Andri Rúnar Bjarnason kom Grindvíkingum í 2:0 og á 83. mínútu kom Juan Manu­el Ort­iz inná sem varamaður fyrir Grindavík fyrir Andar Rúnar. Á sömu mínútu skallaði hann knöttinn í mark eftir hornspurnu. Hann var aftur á ferðinni á 90. mínútu og sendi boltann yfir markvörð Leiknis sem var í skógarferð. Eftir sigurinn í kvöld er Grindavík með 12 stig eftir 5 leiki en Leiknir R er með 10 stig í 2. sæti.

Keflavík fer norður á Akureyri á laugardaginn og mætir þar KA. Keflavík er með 8 stig eftir fjóra leiki.

FLEIRI MYNDIR ÚR LEIKNUM Í MYNDASAFNI NEÐST Í FRÉTTINNI


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindavík - Leiknir R 4:0