Grindavík áfram eftir sigur í Njarðvík
Grindvíkingar unnu sigur á Njarðvík í 8-liða úrslitum Iceland Express-deildar karla í körfubolta í kvöld, 76-87 urðu lokatölur. Njarðvíkingar börðust hvað þeir gátu en ekki tóks þeim að vinna bug á sterku Grindavíkurliði. Þorleifur Ólafsson fann fjölina sína í leiknum og hann steig upp þegar Grindvíkingar þurftu hvað mest á því að halda undir lok leiksins. Sigur Grindvíkinga kom ekk í hús fyrr en í 4. leikhluta en jafnt hafði verið á flestum tölum fram að því.
Leikurinn var hraður og skemmtilegur í upphafi og mikið skorað beggja vegna. Staðan var 16-14 þegar 1. leikhluti var hálfnaður og ljóst að heimamenn í Njarðvík ætluðu að selja sig dýrt. Talsverður hiti var í mönnum allt frá upphafi enda tímabilið undir, a.m.k. hjá öðru liðinu. Þegar 3 mínútur voru eftir af 1. leikhlutanum voru Njarðvíkingar einu stigi yfir en talsvert var farið að draga úr stigaskori miðað við byrjun leiksins.
Áfram var jafnræði með liðunum. Grindvíkingar náðu þó að læða sér yfir í byrjun 2. leikhluta. Það hitnaði talsvert í kolunum þegar Ólafi Helga Jónssyni og Ómari Sævarssyni lenti saman og menn létu brjóstkassana standa fram. Þarna var þetta obinberlega orðið að úrslitakeppni. Stuttu síðar átti Bullock svo mögnuð varnartilþrif þegar hann varði skot Elvars Friðrikssonar í veggi Ljónagryfjunnar. Þegar 3 mínútur voru til hálfleiks var forysta Grindvíkinga orðin 6 stig. Njarðvíkingar voru svo búnir að jafna innan við mínútu síðar þegar Travis Holmes stal boltanum og tróð. Þegar liðin gengu til búningsklefaleiddu Grindvíkingar með einu stigi.
Njarðvíkingar virtust smeykir við það að keyra að körfunni í byrjun seinni hálfleiks og Grindvíkingar settu í lás í vörninni. Grindvíkingar náðu upp 6 stiga forystu og það var farið að draga aðeins af heimamönnum. En þegar 3. leikhluti var hálfnaður þá voru Grindvíkingar fjórum stigum yfir og allt opið. Tvær körfur í röð hjá Njarðvíkingum jöfnuðu leikinn og um leið stóðu áhorfendur á fætur í stúkunni Njarðvíkurmegin. Njarðvík náði forystu skömmu síðar þegar Maciej Baginski kom þeim yfir af vítalínunni þegar skammt var eftir af leikhlutanum. Tvær rosalegar þriggja stiga körfur litu svo dagsins ljós undir lokinn. Fyrst frá Maciej og svo frá Watson á hinum endanum. Staðan 61-61 þegar 10 mínútur voru eftir.
Giordan Watson bauð upp á aðra stóra körfu neðan úr miðbæ Njarðvíkur og kappinn svo sannarlega kominn í gang strax í upphafi síðasta leikhluta. Páll Axel jók muninn í 6 stig aftur skömmu síðar með þriggja stiga körfu og í næstu sókn sá Jóhann Árni til þess að munurinn var orðinn 8 stig. Grindvíkingar létu svo kné fylgja kviði og innan skamms var munurinn orðinn 13 stig. Þorleifur Ólafsson setti niður mikilvægar körfur þegar Grindvíkingar þurftu virkilega á því að halda og sigurinn virtist vera í höfn hjá þeim gulklæddu.
Nú var að duga eða drepast fyrir Njarðvíkinga. Þegar rétt rúmar 2 mínútur voru til leiksloka fór munurinn í 9 stig en Njarðvíkingar höfðu eindfaldlega ekki efni á meira bensíni og að lokum fór það svo að Grindvíkingar tryggðu sér sæti í undanúrslitum. Grindvíkingar gerðu það sem þurfti til að klára leikinn en maður hefur það á tilfinningunni að þeir eigi þó nokkuð inni ennþá. Njarðvíkingar geta gengið stoltir frá borði en liðið gerði hvað það gat í þessari rimmu, að þessu sinni var það bara ekki nóg.
Stigin:
Njarðvík: Cameron Echols 19/8 fráköst, Travis Holmes 18/7 stoðsendingar, Elvar Már Friðriksson 17/8 fráköst/5 stoðsendingar, Páll Kristinsson 10/5 fráköst, Maciej Stanislav Baginski 9, Ólafur Helgi Jónsson 3, Hjörtur Hrafn Einarsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Oddur Birnir Pétursson 0, Rúnar Ingi Erlingsson 0, Sigurður Dagur Sturluson 0, Styrmir Gauti Fjeldsted 0.
Grindavík: Þorleifur Ólafsson 17, Giordan Watson 17/5 fráköst/9 stoðsendingar, J'Nathan Bullock 13/7 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 13/4 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 11, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 10/10 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 2, Ólafur Ólafsson 2, Ryan Pettinella 2/4 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Þorsteinn Finnbogason 0, Ármann Vilbergsson 0.
Myndir POP Texti EJS