Grindavík á toppinn eftir sigur á KA
- Besti karatersigur sem ég hef séð undir minni stjórn sagði Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur.
Grindavík sigraði KA 2:1 í Pepsi deild karla í miklum baráttuleik í dag eftir að hafa lent undir. KA menn voru sprækari í fyrri hálfleik og Hallgrímur Már Steingrímsson skoraði mark á 19. mínútu fyrir KA. Grindvíkingar fengu víti á 22. mínútu en Andri Rúnar Bjarnason brenndi af.
Seinni hálfleikur hófst með látum og voru Grindvíkingar betri aðilinn. Marinó Axel Helgason jafnaði fyrir Grindavík á 70. mínútu. Þetta var hans fyrsti leikur í byrjunarliðinu í sumar. Á 81. mínútu var aftur dæmt víti á KA. Andri Rúnar Bjarnason fór aftur á punktinn og núna brást honum ekki bogalistinn. Staðan því orðin 2:1 fyrir Grindavík og þetta lokaniðurstaðan.
Grindavík er komið á topp í Pepsi deildar karla ásamt Val með 21 stig. Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur var að vonum ánægður með sína menn og sagði að þetta væri besti karaktersigur sem hann hefði séð undir sinni stjórn.