Grétar Hermannsson spáir í spilin hjá Njarðvíkingum
Grétar Hermannsson er dyggur stuðningsmaður Njarðvíkinga og hann segir að hann hafi sennilega aldrei hlakkað jafn mikið til þess að tímabil í körfuboltanum hefjist og einmitt núna í ár. Eins og flestir körfuknattleiksaðdáendur á Íslandi vita þá hafa miklar breytingar átt sér stað hjá félaginu og liðið nánast eingöngu skipað ungum heimamönnum. Njarðvíkingar hefja leik í Iceland Express-deildinni annað kvöld þegar þeir sækja Valsmenn heim.
Hvernig leggst komandi tímabil í þig?
„Ég hef sjaldan eða aldrei verið eins spenntur fyrir tímabili. Það verður keyrt á ungum heimamönnum og tveimur útlendingum í vetur og mér líst mjög vel á það.“
Hvaða leikmaður á eftir að blómstra í vetur?
„Ég ætla að skjóta á Elvar Friðriksson. Hann er búinn að vera með að ég held 14 punkta að meðaltali í Reykjanesmótinu, það er ansi gott fyrir strák sem er ekki kominn með bílpróf.“
Hver er X-faktorinn í liðinu?
„Einhvernveginn held ég að Oddur og Hjörtur eigi eftir að koma sterkir inn. Ég held að menn vanmeti t.d. Odd sem að ég tel að eigi eftir að vera sprækur á tímabilinu.“
Hvernig líst þér á nýju leikmennina?
„Ég er bara búinn að sjá Travis Holmes og hann er mjög góður. Ég veit svo hvað Echols getur. Hann var hérna áður með KR og þá stútaði hann deildinni. Hann er núna eldri og reyndari þannig að ég býst bara við honum betri ef eitthvað er.“
Nú eru margir leikmenn hættir, er einhver sem þú átt eftir að sakna sérstaklega?
„Ég á auðvitað eftir að sakna Gunna Einars, sömuleiðis Frikka Stefáns. Það var gaman að öskra á Gunna og sömuleiðis gaman að horfa á hann spila, þó að hann sé Keflvíkingur.“
Hver verður meiðslapésinn hjá Njarðvík í vetur?
„Ég ætla að skjóta á Jens, bara af því að hann er stór en að sjálfsögðu vonar maður að enginn meiðist.“
Hverjir eru veikleikar Njarðvíkinga?
„Þeir eru varla komnir með hár á punginn, þeir eru það ungir. Þó búa þeir yfir reynslu úr yngri landsliðum en þeir eru ungir eins og áður segir og kannski viðkvæmir fyrir áreiti úr stúkunni og öðru slíku.“
„Styrkleikinn er sá að þeir eru búnir að æfa eins og vitleysingar í sumar og flestallir búnir að spila lengi saman og þekkja inn á hvorn annan,“ segir Grétar að lokum um leið og hann hvetur Njarðvíkinga til að ganga í Grænu ljónin, sem er nýr stuðningsmannaklúbbur Njarðvíkinga.