Grétar hefur tryggt sér sigur gegn Jóni Ásgeir í tippleik Víkurfrétta
Gleðin stóð stutt hjá Jóni Ásgeir Þorkelssyni sem hafði náð að leggja fjórfaldan tippara, Hámund Örn Helgason í síðustu umferð. Jón Ásgeir mætti Sandgerðingnum Grétari Ólafi Hjartarsyni og þrátt fyrir að geta jafnað Grétar með réttum úrslitum í lokaleik dagsins á milli Burnley og Everton, er ljóst að Grétar hafði sigur úr býtum.
Ef lokaleikurinn fer 1 eða x, mun Jón Ásgeir hafa leikinn réttan en ekki Grétar sem festi útisigur (2) á Everton. Hins vegar myndi Jón Ásgeir einungis ná jafn mörgum leikjum réttum og Grétar en sá síðarnefndi er með þrjá rétta í leikjum með einu merki, en Jón Ásgeir bara tvo rétta.
Það verður því Sandgerði sem mun hampa tippmeistaranum í jólafríinu en næsta umferð í tippleiknum fer fram laugardaginn 30. desember og þá mun Grétar mæta tippara úr Garðinum, hver það verður á eftir að koma í ljós.