Grein um ríg á vefsvæði Keflavíkur
Á vefsvæði Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur er að finna grein sem ber yfirskriftina „Gamli góði rígurinn“ en í greininni er þeirri spurningu velt upp hvar rígurinn á milli Keflavíkur og Njarðvíkur sé þegar kemur að körfubolta. Í greininni eru rifjuð upp atvik sem upp komu á milli stuðningsmanna Keflavíkur og Njarðvíkur á Reykjanesmóti fyrir nokkrum árum. Greinarhöfundur, sem kallar sig Tímavörðinn segir að allan kraft vanti í ríginn á milli stuðningsmanna liðanna, en hann bendir á að stuðningsmenn liðanna geti nýtt sér spjallsvæði liðanna. Hér á eftir má sjá greinina í heild sinni.
Gamli góði rígurinn
Hvar er gamli góði rígurinn sem var á milli Keflavíkur og Njarðvíkur? Tímavörðurinn man þá tíma þegar fólk frá þessum tveim bæjarhlutum Reykjanesbæjar gátu ekki verið í sama herbergi án þess að rífast heiftarlega um körfubolta. Fólk rauk jafnvel á dyr í rifrildi um það hvor væri betri Teitur eða Gaui.. Einnig voru blönduð hjónabönd á milli Keflvíkinga og Njarðvíkinga litin hornauga, og hlutu aldrei blessun samborgarana þó svo þau hafi verið blessuð af presti.
Hið góða og kjarnyrta orð erkifjendur sem notað hefur verið yfir lið Keflvíkinga og Njarðvíkinga, er merkingaleysa í dag. Tímavörðurinn man vel eftir leik í Reykjanesmótinu þar sem flestir leikmenn þessa liða ruku saman og enduðu í góðum hópslagsmálum fyrir aftan aðra körfuna, og Jói Kristbjörns tók Jón KR lögreglutaki til að skakka leikinn. Í dag eru þessir leikir í hinu mesta bróðerni.
Í dag vantar allan kraft í þennan ríg sem er svo til horfinn hér hjá okkur stuðningsmönnum Keflvíkinga. Reyndar finnst ennþá smá rígur hjá Njarðvíkingum, en er í raun bara smá rembingur, frekar en hollur og góður rígur.
Einstaka sinnum má sjá fólk sleppa fram af sér beislinu á spjallsvæðum liða, og eru þá spjallsvæðin lögð niður hraðar en auga á festir. Tímavörðurinn vill gjarnan að spjallsvæði væri komið upp hér á heimasíðu Keflavíkur, þar sem menn mættu láta gamminn geysa um gagn og ógagn leikmanna síns liðs og annara. Það væri kannski til þess að endurvekja ríginn góða. Það er líka athugandi að þegar hollur og góður rígur ríkti á milli þessara liða var alltaf fullt á leikjum, og nær undantekningarlaust þurfti að standa í Ljónagryfjunni (sem er varla meira en Kattakassi í dag).
Upp með gamla góða ríginn, Keflvíkingar eru bestir og Njarðvíkingar ömulegir (smá til að koma mönnum af stað). Þar til spjallsvæði koma aftur hjá körfuknattleiksliðum í Reykjanesbæ, er áhugasömum bent á að senda undirrituðum tölvupóst, og nota spjallið á Dómarasíðunni, http://www.kkdi.is/spjall/
Tímavörðurinn tók eftir því að Gaui Þ. Ísfirðingur hefur minnst á pistlana á spjallinu fyrrnefnda, og er Tímavörðurinn rífandi stoltur af því. Gaui Þ. er einn áhugasamasti stuðningsmaður körfuboltanns, og fylgist með öllu því sem gerist hjá öllum liðum. Þetta er maður sem ætti að klóna, og hvert lið ætti að hafa einn slíkan. Kannski eins og í
Bestu kveðjur, þangað til næst.
Tímavörðurinn - [email protected] .
Ath. skoðanir Tímavarðarins eru einungis hans og endurspegla á engan hátt skoðanir Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.