Grátlegt tap hjá Sandgerðingum
Reynir Sandgerði tapaði 3-2 gegn Fjarðarbyggð þegar liðin áttust við í 2. deild karla í knattspyrnu í gær. Reynismenn náðu 0-2 forystu í leiknum en þannig var staðan í hálfleik. Heimamenn náðu heldur betur að snúa leiknum sér í vil með þremur mörkum í síðari hálfleik, en sigurmark Fjarðarbyggðar kom á síðustu mínútu venjulegs leiktíma. Eftir tapið sitja Sandgerðingar í neðsta sæti deildarinnar með fimm stig eftir ellefu leiki.
Mörk Reynis gerðu Þorsteinn Þorsteinsson (víti) og Viktor Jónsson.