Götur Reykjavíkur grænar fyrir Minningarsjóð Ölla
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2019 fer fram laugardaginn 24. ágúst næstkomandi. Líkt og undanfarin ár gefst hlaupurum kostur á að hlaupa til styrktar góðu málefni þar sem áheitasöfnun fer fram á hlaupastyrkur.is
Á síðustu árum hafa fjölmargir hlaupið til styrktar minningarsjóði Ölla en sjóðurinn styrkir börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna.
Myndarlegur hópur Njarðvíkinga mun hlaupa til handa minningarsjóði Ölla um helgina en hópurinn hefur æft vel undanfarið og kom saman í gærkvöldi. Hlauparar fyrir minningarsjóð Ölla ætla að klæðast Njarðvíkurbúningum í Reykjavíkurmaraþoninu um helgina og mála götur Reykjavíkurborgar grænar. Vænta má þess að jafnvel nokkrar gamlar og góðar treyjur sjáist á götum Reykjavíkur.
Þess má geta að nokkrir af leikmönnum meistaraflokka Njarðvíkur munu reima á sig hlaupaskóna um helgina. Jón Arnór Sverrisson lætur sitt ekki eftir liggja og þá mun Halldór Karlsson aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla einnig hlaupa fyrir minningarsjóðinn en eins og flestum ætti að vera vel kunnugt er Halldór gríðarmikill hlaupagarpur og ekki ósennilegt að hann verði á meðal þeirra fyrstu í mark.
Í meistaraflokki kvenna mun Erna Freydís Traustadóttir hlaupa fyrir sjóðinn sem og þær Eva María Lúðvíkdsdóttir og Katrín Freyja Ólafsdóttir. UMFN.is mun á næstu dögum kynna fjölda hlaupara á sínum miðlum og hvetjum við Njarðvíkinga sem aðra til þess að heita á hlauparana og leggja um leið minningarsjóði Ölla lið.
#ÁframMinningarsjóðurÖlla #ÁframNjarðvík
Minningarsjóður Ölla í Reykjavíkurmaraþoninu 2019 (hér má sjá alla sem hlaupa fyrir sjóðinn)