Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Gott félagsstarf en meðalaldurinn í golfklúbbnum nokkuð hár
Sunnudagur 19. júlí 2015 kl. 07:00

Gott félagsstarf en meðalaldurinn í golfklúbbnum nokkuð hár

Skemmtilegur golfvöllur á Kálfatjörn. Klúbbnum gefið hjartastuðtæki.

Golfklúbbur Vatnsleysustrandar fékk góða gjöf á dögunum þegar kvenfélagið Fjóla og Lionsklúbburinn Keilir, bæði félög sem starfa í Vogum á Vatnsleysuströnd, gáfu golfklúbbnum hjartastuðtæki að gjöf. Tilefnið er að bæði félögin eiga stórafmæli á þessu ári, Fjólan er 90 ára og Keilir er 40 ára.

Hilmar Egill Sveinbjörnsson, formaður golfklúbbs Vatnsleysustrandar sagðist í samtali við Víkurfréttir vera afar þakklátur fyrir gjöfina. „Þetta er góð og vegleg gjöf sem við erum mjög þakklát fyrir. Þetta er orðinn fastur liður hjá svona félögum eins og golfklúbbnum okkar að hafa svona tæki til taks ef á þarf að halda en að sjálfsögðu vonumst við nú til þess að þurfa ekki að nota það.“ Hilmar sagði að meðalaldur félaga í golfklúbbnum væri nokkuð hár, svona rétt um fimmtugt. „Þannig að í ljós þess er nú auðvitað mjög fínt að fá þetta tæki að gjöf, nei ég segi nú svona,“ sagði Hilmar hlægjandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Félagar í golfklúbbi Vatnsleysustrandar að Kálfatjörn hafa þó orðið vitni að ótrúlegustu hlutum en skemmst er að minnast á þegar lítil einkaflugvél brotlenti á golfvellinum síðasta sumar. „Já já, það er rétt,“ sagði Hilmar. „Hún ákvað að taka eina brautina til lendingar og snerti eitt grínið hjá okkur en það sást ekkert á því. Það sáust hjólför á gríninu en það var búið að jafna sig eftir tvo til þrjá daga. Það var ekki neitt neitt, ótrúlegt.“

Veðurfar í vor og framan af sumri var, eins og kunnugt er, ekki gott og kalt lengst af. Gróður var lengi af stað og á það einnig við um golfvelli landsins. „Völlurinn kom bara vel undan vetri. Vorið var kalt eins og við sjálfsagt öll vitum en á tveimur til þremur vikum kom völlurinn fljótt til.“

Aðsókn á golfvelli landsins var lítil fyrst í vor og sumar, vegna veðurs en hvernig er aðsóknin á Kálfatjarnarvöll búin að vera það sem af er sumri?

„Aðsóknin er bara búin að vera með ágætu móti. Það var náttúrulega kalt í vor þannig að eins og gefur að skilja þá fór fólk seinna af stað með settin sín, tók þau seinna út en síðan hefur þetta bara gengið ágætlega. Aðsóknin hingað til er líklega betra en í fyrra og síðastliðin tvö ár,“ sagði Hilmar.

Hvernig er félagsskapurinn í golfklúbbi Vatnsleysustrandar?

„Þetta er afskaplega góður félagsskapur hérna hjá okkur. Hérna er rólegt og fínt andrúmsloft og fólk afslappað. Sæmileg traffík er á vellinum. Hérna er þetta afslappað, félagar eru farnir að eldast aðeins eins og ég sagði, þannig að það kannski segir sitt.“

Hvernig er kynjaskiptingin í klúbbnum að Kálfatjörn, eru fleiri karlar en konur?

„Já þeir eru fleiri enn sem komið er en við vonumst til að konunum fari nú að fjölga hjá okkur.“

Golfvöllurinn að Kálfatjörn er 9 holur en hvað er það sem einkennir golfvöllinn sjálfan?
„Það sem einkennir völlinn hjá okkur er þetta manngerða landslag sem er í honum. Hér er mikið af gömlum tóftum og hlöðnum túngörðum og öðru sem fyrir þann sem ekki hefur komið hingað áður, er óneitanlega bæði fallegt og sérstakt. En það getur líka refsað kylfingum illa að lenda í þessum görðum og ef þeir ætla sér eitthvað stórt, þá getur farið illa fyrir þeim. Völlurinn okkar að Kálfatjörn er alls ekki erfiður yfirferðar en hætturnar leynast víða,“ sagði Hilmar að lokum.

Hilmar Egill Sveinbjörnsson, formaður golfklúbbs Vatnsleysustrandar. Myndir að neðan eru frá Kálfatjörn.