Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Gott að hafa Frans-vélina við hlið sér
Föstudagur 17. maí 2013 kl. 08:08

Gott að hafa Frans-vélina við hlið sér

Keflvíkingurinn Sigurbergur Elísson hefur fengið nýtt hlutverk hjá Keflvíkingum í Pepsi-deildinni þetta sumarið. Vanalega hefur Sigurbergur haldið sig framarlega á vellinum og spilað sem sóknarmaður eða kantmaður með meistaraflokki og jafnan fékk hann að leika lausum hala hjá 2. flokki þegar hann lék þar. Sigurbergur sem verður 21 árs innan skamms hefur tekið við hlutverki varnarsinnaðs miðjumanns en honum er ætlað að leysa hlutverk sem Einar Orri Einarsson leysti svo vel af hólmi í fyrra.

Sigurbergur segir þetta vissulega vera nýtt umhverfi. Hann á stundum í erfiðleikum með að hemja sig og hlaupa ekki fram þegar liðið hefur sókn. „Þetta er svolítið skrítið en ég er með góða menn þarna í kringum mig sem maður lærir af.“ Einar Orri er meiddur og kemur líklega ekki til með að leika mikið á þessu tímabili. Zoran þjálfari nálgaðist þá Sigurberg og bað hann um að taka stöðuna að sér. „Hann ákvað að prófa mig þarna og það er greinilegt að hann treystir mér fyrir þessu.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í fyrsta sinn í þrjú ár náði Sigurbergur fullu undirbúningstímabili en hann glímdi við erfið meiðsli í hné sem hafa aftrað honum undanfarin ár. Nú er hann loks heill heilsu og virkar í fínu formi. Í fyrra náði Sigurbergur 18 leikjum með Keflvíkingum og vakti hann nokkra athygli enda skoraði hann fjögur mörk og sýndi frábær tilþrif inni á milli.

Sigurbergur viðurkennir að varnarlega hliðin sé kannski ekki sú sterkasta hjá honum en hann er að eigin sögn fínn skallamaður og er óðum að læra á nýja stöðu. Hans hlutverk er að sækja boltann frá vörninni og koma spilinu af stað. Eins er honum ætlað að verja vörnina fyrir áhlaupum. Hlutverkið er ábyrgðarmikið og krefjandi. Sigurbergur býr svo vel að hafa góðvin sinn Frans Elvarsson með sér á miðjunni en Frans hefur vakið athygli fyrir mikla baráttu en svo virðist stundum að maðurinn sé þindarlaus. „Við þekkjumst vel bæði innan og utan vallar og það er gott að hafa svona kraftmikinn leikmann við hlið sér. Við köllum hann Frans-vélina en hann virðist aldrei þreytast,“ segir Sigurbergur.

 

Frans Elvarsson hefur verið að festa sig í sessi hjá Keflvíkingum. Hann er duglegur leikmaður enda kallaður Vélin af samherjum sínum.