Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þriðjudagur 14. ágúst 2001 kl. 19:02

Gott að finna stuðninginn - segir Örn Ævar

Á annað hundrað manns mættu í golfskálann í Leiru í gærkvöld til að samfagna Erni Ævari Hjartarsyni, kylfingi í Golfklúbbi Suðurnesja og nýkrýndum Íslandsmeistara í golfi í hófi sem haldið var honum til heiðurs. Örninn eins og hann er oft kallaður var hógværðin uppmáluð að venju og sagðist þakklátur fyrir allan stuðninginn, ekki síst þeim sem mættu í Grafarholtið til að fylgja honum í mótinu. „Það var mjög gott að finna fyrir stuðningi í þessari hörðu baráttu úti á golfvell og heyra klapp eftir góðar holur“, sagði Örn Ævar.Erni voru færðar gjafir í tilefni árangursins frá klúbbi sínum og fleiri aðilum. Einar Magnússon, formaður Golfklúbbs Suðurnesja sagði að Íslandsmeistaratitillinn væri ekki aðeins mikilvægur og skemmtilegur fyrir Örn sjálfan heldur og mjög mikilvægur fyrir GS. „Ég vil líka nota tækifærið á þessari stundu og þakka fjölmörgum aðilum sem hafa stutt klúbbinn í sumar. Sigur Arnar er toppurinn á vel heppnuðu sumri hjá okkur“, sagði formaðurinn.

Örn Ævar fékk 50 þús. króna árangurstengdan styrk frá klúbbunum fyrir árangurinn sem Íþróttanefnd afhenti honum fyrir hönd GS. Í kjölfarið komu Skúli Skúlason, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og Gunnar Oddsson, formaður Íþrótta- og tómstundaráðs og afhentu Erni 100 þús. krónur frá styrkar- og afrekssjóði ráðsins. Júlíus Júlíusson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja kom í kjölfarið og óskaði Erni til hamingju með þennan frábæra árangur sem Suðurnesjamenn hafi beðið eftir undanfarin ár. Hann sagði Íslandsmeistaranum að hann hefði ásamt þeim Þorsteini Erlingssyni frá Saltveri, Einari Guðberg hjá Meistarahúsum og Steinari Sigtryggssyni hjá Olís lagt 1500 dollara inn á reikning hans í Sparisjóðnum. „Kemur sér vel“, sagði Örn og þakkaði hlý orð og góðar gjafir. Hann fór daginn eftir til Bandaríkjanna þar sem hann er að hefja síðasta ár sitt í námi í almenningstengslum.

Hófið var sótt af félögum í Golfklúbbi Suðurnesja og velunnurum hans. Örn fékk hamingjuóskir frá á annað hundrað manns sem mættu til að samfagna honum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024