Golíat-Davíð: 17-0
Fátt virðist geta stöðvað markamaskínu Keflavíkurstúlkna þessa dagana. Í kvöld afgreiddu þær lið UMF Bessastaða 17-0 á útivelli í 1. deild kvenna. Sagt er að hugur ráði hálfum sigri og miðað við úrslitin þá hafa Keflavíkurstúlkur mætt dýrvitlausar til leiks.
Þegar liðin gengu til hálfleiks var staðan 9-0 Keflavík í vil og björninn því unninn. Leikurinn endaði eins og áður segir 17-0 fyrir Keflavík þar sem Ágústa Jóna Heiðdal gerði 6 mörk. Hrefna Guðmundsdóttir gerði 4, Björg Ásta 2, Helena Rós 2, Thelma Dögg 1, Inga Lára 1 og Lilja Íris 1. Liðin hafa nú mæst tvisvar sinnum í sumar og í leikjunum hefur Keflavík haft betur 36-0.
Keflavík er nú á toppi 1. deildar A-riðils með fullt hús stiga eða 30 stig eftir 10 leiki og hafa gert 104 mörk en aðeins fengið á sig fjögur. Næsti leikur liðsins er á móti sameinuðu liði HK og Víkings og fer hann fram á Keflavíkurvelli þann 9. ágúst kl. 19.00. Með sigri í leiknum gulltryggir Keflavíkurliðið sér efsta sætið í riðlinum og þátttökuréttindi í úrslitakeppni 1. deildar.
VF-mynd/ úr safni; úr leik Keflavíkur og Hauka fyrr í sumar.