Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Golfsvíta og glæsileg aðstaða
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ slær hér í nýja golfherminum.
Sunnudagur 23. janúar 2022 kl. 06:50

Golfsvíta og glæsileg aðstaða

Golfklúbbur Suðurnesja tók í notkun nýja og glæsilega inniæfingaaðstöðu um síðustu helgi. Aðstaðan er í gömlu slökkvistöðinni við Hringbraut í Reykjanesbæ og leysir af hólmi þá aðstöðu sem golfklúbburinn hefur deilt undanfarin ár með Púttfélagi Suðurnesja í Íþróttaakademíunni við Sunnubraut. 

Sigurpáll Geir Sveinsson, íþróttastjóri GS, sagði í samtali við Víkurfréttir að nýja aðstaðan væri mun rúmbetri en sú gamla og henti betur til golfæfinga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Hér höfum við níu holu púttflöt og aðstöðu þar sem þrír geta slegið í net samtímis. Þá eru tveir golfhermar á staðnum, sá gamli og einn nýr og fullkominn sem er í stóru, lokuðu rými – það er hálfgerð svíta,“ segir Sigurpáll.

„Þá er þarna aðstaða með sjónvarpi, sófasetti og píluspjaldi fyrir félagsmenn en það er mjög gott fyrir félagsandann að hafa aðstöðu yfir vetrartímann þar sem félagar geta hist og fylgst með golfi í sjónvarpinu, spilað pílu eða bara spjallað saman.“

Þótt Golfklúbbur Suðurnesja sé nýbúinn að opna aðstöðuna í gömlu slökkvistöðinni þá er nú þegar búið að panta mikið í golfhermana segir íþróttastjórinn. „Það er augljóslega mikill áhugi á að komast í golf því nú þegar er búið að panta mjög mikið í hermana, sérstaklega þann nýja. Það geta allir pantað í golfhermi hjá okkur, sama hvort þeir eru félagar í GS eða ekki, en það er þó talsvert ódýrara tímagjald fyrir félagsmenn,“ sagði Sigurpáll að lokum.

Nánari upplýsingar um tímapantanir er að finna á heimasíðu Golfklúbbs Suðurnesja, gs.is.