Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Golfstarfið kynnt á félagsfundi GS
Föstudagur 16. apríl 2010 kl. 14:00

Golfstarfið kynnt á félagsfundi GS

Golfklúbbur Suðurnesja kynnti fjölbreytt starf á félagsfundi í golfskálanum í fyrrakvöld. „Það er nauðsynlegt að halda félögum upplýstum um hvað sé í gangi. Gott samband gerir allt starf auðveldara í félagi eins og GS,“ sagði Sigurður Garðarsson, formaður GS eftir fundinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Formaður fór yfir helstu mál sem hafa verið í gangi eins og ráðningu nýs íþróttastjóra, veitingafólks, stöðuna í fjármálum og fleira. Formaður mótanefndar, Snæbjörn Guðni Valtýsson fór yfir mótaskrá sumarsins en auk hefðbundinna stórmóta eins meistaramóts GS verða stærstu opnu mótin Íslandsmót 35 ára og eldri og þrjú opin unglingamót á GSÍ mótaröð unglinga.


Björn V. Skúlason, formaður vallarnefndar fór yfir helstu atriðin í vallarmálum í Leirunni. Hann sagði að vel hafi tekist til að halda Hólmsvelli opnum með aðgangi að sumarflötum í vetur. Aðeins nokkrar vikur hafi dottið út vegna frosts. „Við sjáum svo hvernig flatirnar koma út í sumar og munum meta það þá hvort þessi vetraropnun sé eitthvað sem við getum haldið áfram,“ sagði Björn.

Formaður greindi frá góðri stöðu í fjármálum og rekstri klúbbsins. Þó skuldir væru nokkrar þá væru þær viðráðanlegar og GS hefði sem betur fer sloppið vel út úr Hruninu. Hann ræddi einnig sjálfboðavinnu sem væri nauðsynleg, bæði með hjálp í mótahaldi og vinnu úti á vellinum.

GS er með vinavallarsamninga við nokkra klúbba þar sem félagar í öðrum golfklúbbum hafa aðgang að Hólmsvelli með samningi þar um. GS félagar fá ókeypis aðgang að þremur öðrum golfvöllum, í Grindavík, í Mosfellsbæ og í Þorlákshöfn. Þá var gerður samstarfssamningur við Strandarvöll á Hellu.

Karen Sævarsdóttir er íþróttastjóri Golfklúbbs Suðurnesja. Hún fór yfir helstu málin í afreks- og unglingaþjálfun og fleira. Að neðan má sjá félagsmenn á kynningarfundinum.