Golfklúbbur Sandgerðis fylgir ráðum sóttvarnayfirvalda og lokar vellinum
Golfklúbbur Sandgerðis hefur lokað golfvellinum sínum öðrum en félagsmönnum. Er þetta gert til að stemma stigu við veirufaraldrinum sem hefur geisað á höfuðborgarsvæðinu og höfðu fjölmargir kylfingar af höfuðborgarsvæðinu bókað rástíma á völlum Suðurnesja áður en þeir lokuðu á aðra en félaga.
Tilkynningin sem birtist á Facebook-síðu Golfklúbbs Sandgerðis:
TILKYNNING:
Kirkjubólsvöllur er aðeins opinn fyrir félagsmenn GSG
Vegna þessa erfiða Covid 19 ástands, skýrra skilaboða frá almannavörnum og tilmæla frá Golfsambandi Íslands, hefur stjórn GSG nú tekið ákvörðun um að loka Kirkjubólsvelli fyrir öllum nema félagsmönnum. Golfvellir á höfuðborgarsvæðinu hafa nú lokað og GSÍ beinir tilmælum sínum til kylfinga þar að leita ekki til golfvalla utan höfuðborgarsvæðisins, enda höfuðborgarbúar beðnir að vera ekki á ferðinni til eða frá svæðinu meira en nauðsyn krefur.
Þessar breytingar taka gildi frá 9. október kl. 21:00
Þeir kylfingar utan GSG sem áttu rástíma um helgina, falla niður.
Klúbbhúsið er alveg lokað fyrir öllum, líka félagsmönnum.
Þetta er leiðindaástand en það er von okkar að kylfingar sýni þessu skilning.
Vinnum saman að því að kveða þessa veiru niður.
Stjórn GSG