Golfklúbbur Sandgerðis er 25 ára gamall
Golfklúbbur Sandgerðis fagnar 25 ára afmæli sínu en hann var stofnaður 24. apríl árið 1986. Til stendur að fagna þessum tímamótum og halda mót með bæjarstjórn Sandgerðis í júní með tilheyrandi afmælisstandi og verður það auglýst síðar. Sigurjón Gunnarsson, formaður GSG, skrifar eftirfarandi um þessi tímamót klúbbsins.
„Það verður að segjast eins og er að grettistaki hefur verið lyft með gerð þessa 18 holu vallar. Þó svo að peningar hafi verið af skornum skammti þá hefur tekist að ljúka verkinu með mikilli sjálfboðavinnu ásamt útsjónarsemi framkvæmdastjóra.
Margir meðlimir í klúbbnum voru á móti stækkun úr 9 holum í 18 en efasemdaraddir voru slegnar út af borðinu á síðasta aðalfundi. Ný stjórn tók við taumunum og fóru þá hjólin að snúast fyrir alvöru. Samningur við Sandgerðisbæ var endurnýjaður og gerði það klúbbnum kleift að ráðast í þau tækjakaup sem sárlega hafði vantað. Nú blasir við 18 holu strandvöllur, einn sá besti á landinu og geta Sandgerðingar verið stoltir af þessum velli. Einstakt landsvæði gerir það að verkum að klaki og vatn eru ekki til vandræða þar sem skeljasandur er víða undirlag. Þess vegna er alltaf spilað á sumarflötum og vetrarmót eru mjög vel sótt. Kylfingar koma hvaðan æva að til að spila völlinn að vetri til og er algengt að mót séu haldin í janúar og febrúar á Kirkjubólsvelli.
Ég vil nota þetta tækifæri til að samfagna Sandgerðingum og óska öllum velunnurum klúbbsins til hamingju með daginn.
Sigurjón Gunnarsson, formaður GSG.“