Golfklúbbur Grindavíkur fjörutíu ára
Golfklúbbur Grindavíkur fagnaði fjörutíu ára afmæli á föstudaginn en GG var stofnaður 14. maí 1981.
Margt hefur gerst á fjörutíu ára líftíma klúbbsins og í dag er Húsatóftavöllur orðinn einn af fallegustu og skemmtilegustu átján holu golfvöllum landsins, brautirnar umluktar hrauni sem eru fljótar að refsa kylfingum sem eru kannski örlítið áttavilltir á stundum. Miklar umbætur á vellinum hafa átt sér stað á undanförnum árum en hann varð fyrir áfalli í byrjun síðasta árs þegar fárviðri gekk yfir landið og jós stórgrýti langt upp á brautir vallarins. Betur fór þó á en horfðist og völlurinn skartar sínu fegursta í dag.
Gestir kíktu á nýjan pall sem klúbbmeðlimir hafa hjálpast að við að smíða að undanförnu undir öruggri stjórn framkvæmdastjóra, golfarans Helga Dan Steinssonar.
Af tilefni afmælisins hefur klúbburinn gefið út veglegt afmælisblað (smellið á tengilinn til að lesa afmælisblaðið) þar sem stiklað er á sögu GG og tekin viðtöl við fjölmarga sem hafa átt þátt í að móta sögu klúbbsins.