Golfhungraðir kylfingar á vormóti í Leirunni
Eitthundrað og þrjátíu kylfingar taka þátt í fyrsta vormóti Golfklúbbs Suðurnesja sem nú stendur yfir í Leirunni. Veður var þokkalegt, nokkur vindur en lítil bleyta og keppendur létu það ekkert á sig fá því þeir voru mættir til að leika vorgolf. Hungraðir í golf eftir veturinn.
„Ég var nú að koma frá Spáni í gær þar sem hitinn var yfir tuttugu stig. Ég var samt ákveðin að mæta í Leiruna þó það sé nokkuð kaldara,“ sagði Heimir Bergmann, kylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur í samtali við fréttamann rétt áður en hann fór á fyrsta teig.
„Það var miklu meiri rigning á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er allt í lagi hér,“ sagði Brynjar Þór Níelsson úr GR og Hilmar Björnsson, fyrrverandi handboltaþjálfari og kollegi hans úr sama klúbbi brosti og sagði ekki mikið. GR-ingar og kylfingar úr öðrum klúbbum voru fjölmennir í mótinu. Síðasta holl fór út rétt fyrir klukkan tvö og er væntanlegt inn um klukkan sex.
Á myndunum má sjá Sigurð Albertsson á efri myndinni á 1. teig. Að baki hans er einn mótsstjóranna í dag, Jón Ólafur Jónsson. Á neðri myndinni er Njarðvíkingurinn Snorri Jóhannesson að pútta á 16. flöt.
Í ljósmyndasafni kylfings, systurvefs vf.is má sjá fleiri myndir frá mótinu í Leirunni. Smellið hér.