Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Góður þjálfari er skipulagður og sýnir metnað“
Sunnudagur 24. desember 2017 kl. 07:00

„Góður þjálfari er skipulagður og sýnir metnað“

Síðustu leikir í Domino’s-deildum karla og kvenna í körfu fóru fram í síðustu viku og hefjast leikar aftur fljótlega eftir áramót. Leikmenn og þjálfarar fá nú tækifæri til þess að slípa leik sinn betur, gera vel við sig í mat og drykk yfir jólahátíðina en það er ekki þar með sagt að það sé komið jólafrí og æfingar eru enn í fullum gangi hjá liðunum. Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari karlaliðs Njarðvíkur svaraði nokkrum laufléttum spurningum fyrir okkur.

Hvernig verða æfingarnar yfir jólahátíðina?
Við þurfum að slípa okkur betur saman bæði varnar- og sóknarlega, ásamt því að koma nýjum leikmanni inn í þá hluti sem við erum að gera, þannig það verður mikið æft. Ætli við kíkjum svo ekki í góðan Metabolic tíma eftir allar þessar kræsingar um jólin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hver eru markmiðin á nýju ári?
Markmiðin hafa lítið breyst en við ætlum okkur að enda deildina í einu af fjóru efstu sætunum. Svo skoðum við fleiri markmið þegar líður að úrslitakeppni.

Hvernig er góður þjálfari?
Góður þjálfari er skipulagður og sýnir metnað. Hann er kröfuharður, góður í mannlegum samskiptum og getur lesið vel í aðstæður á krefjandi augnablikum.

Hvernig er stemningin í hópnum?
Hún hefur verið mjög góð undanfarnar vikur og verður enn betri á nýju ári.

Hver er mesti sprelligosinn í liðinu?
Þeir eru margir hressir og skemmtilegir í liðinu en það er alltaf gaman í kringum Ragnar Nathanelsson.

Hver er alltaf seinn/sein?
Leikmenn né þjálfarar fá nú ekki mikið rými fyrir seinkomur.

Hvað borða íþróttamenn yfir hátíðarnar?
Vonandi bara góðan jólamat á aðfangadag og smá hangikjöt á jóladag. Svo auka skammt af ávöxtum og grænmeti alla hina dagana.

Fara íþróttamenn í kjólinn fyrir jólin?
Þeir eru alltaf og eiga alltaf að vera í góðu standi, sama hvaða árstími er í gangi.