Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Góður sigur Keflvíkinga á KA í Lengjubikarnum
Jöfnunarmarki Sindra Þórs fagnað í seinni hálfleik. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 5. febrúar 2023 kl. 12:13

Góður sigur Keflvíkinga á KA í Lengjubikarnum

Það má segja að knattspyrnutímabilið á Suðurnesjum hafi formlega byrjað í gær þegar Keflavík tók á móti KA í Lengjubikar karla. Ungt lið Keflavíkur stóðst fyrstu prófraunina með miklum sóma en eftir að hafa lent undir í fyrri hálfleik tryggðu heimamenn sér sigur með mörkum frá Sindra Þór Guðmundssyni og Axel Inga Jóhannessyni.

Leikurinn var fjörugur og bæði lið fengu sín færi. KA komst yfir á 20. mínútu með skallamarki eftir góða fyrirgjöf. Algerlega óverjandi fyrir hinn unga markvörð Keflavíkur, Ásgeir Orra Magnússon, sem stóð fyrir sínu og var mjög öruggur í sínum aðgerðum.

Keflvíkingar hófu seinni hálfleik af krafti og sóttu stíft. Á 65. mínútu sendi Sindri Snær Magnússon langa sendingu upp vinstri kantinn þar sem Ásgeir Páll Magnússon tók vel á móti boltanum og átti góða sendingu á Sindra Þór Guðmundsson sem afgreiddi boltann af öryggi í netið, staðan 1:1.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Bæði mörk Keflavíkur komu eftir góðar sendingar Sindra Snæs fram völlinn.

Sindri Snær átti aftur góða sendingu inn fyrir vörn KA skömmu fyrir leikslok þar sem Axel Ingi Jóhannesson stakk sér inn fyrir aftasta mann og hamraði boltann í netið (85'). Sannkallaður þrumufleygur sem markvörður KA átti ekki neitt svar við. Fleiri urðu mörkin ekki og Keflavík byrjar tímabilið á frábærum sigri.

Það var ánægjulegt að horfa á Keflavíkurliðið í gær sem vann vel saman og allir lögðu sig fram sem ein heild. Ungu strákarnir sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki gáfu ekkert eftir og létu eldri og reynslumeiri leikmenn KA finna vel fyrir sér, má þar nefna markaskorarann Axel Inga, Val Þór Hákonarson sem var mjög ógnandi vinstri kantinum og Jóhann Þór Arnarson í framlínunni. Eins og fyrr segir stóð markvörðurinn Ásgeir Orri einnig fyrir sínu og var t.d. mjög öruggur þegar hann fór út í fyrirgjafir.

Axel Ingi lætur vaða ...
... og boltinn söng í netinu.
Jóhann Þór Arnarsson kom inn á í síðari hálfleik og setti oft mikla pressu á vörn KA.