Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Góður sigur Keflvíkinga!
Þriðjudagur 30. mars 2004 kl. 23:06

Góður sigur Keflvíkinga!

Keflvíkingar eru komnir í úrslit Íslandsmótsins í körfuknattleik eftir frábæran sigur á Grindvíkingum í Röstinni í kvöld, 89-101. Leikurinn var oddaleikur liðanna til að skera úr um það hvort þeirra myndi mæta Snæfellingum í úrslitum.

Í síðasta leik liðanna voru Grindvíkingar kyrfilega niðurlægðir með 48 stiga tapi og ljóst var að þeir ætluðu ekki að láta.slíkt endurtaka sig.
Þeir tóku frumkvæðið strax og þeir félagar Darrel Lewis og Anthony Jones fóru á kostum og skoruðu 20 og 19 stig í fyrri hálfleik. Munurinn var orðinn 12 stig í öðrum leikhluta, 38-26, en Keflvíkingar náðu að minnka muninn niður í þrjú stig í hálfleik, 49-46.

Í upphafi seinni hálfleiks hrukku Keflvíkingar aldeilis í gang og fór þar fremstur í flokki Nick Bradford sem átti ótrúlegan leik í kvöld og hitti úr fjórum 3ja stiga skotum í seinni hálfleik. Í þriðja leikhluta skiptust liðin á að leiða og fyrir lokakaflann hafði Keflavík fjögurra stiga forskot, 70-74.

Í fjórða leikhluta var loftið þrungið spennu og stuðningsmenn beggja liða létu heyra vel í sér. Heimamenn fundu þó ekki taktinn í leik sínum og Keflvíkingar tóku stjórnina og sigldu örugglega í sigurátt eftir því sem dró nær leikslokum. Rogers og Jones fóru af velli með 5 villur áður en yfir lauk og þegar rúm mínúta var til leiksloka var munurinn orðinn 14 stig og ljóst í hvað stefndi. Úrslitasætið var staðreynd fyrir Keflvíkinga sem eru á góðri siglingu þessa dagana og verða eflaust óhemju erfiðir viðureignar fyrir Snæfell í úrslitunum sem hefjast í Hólminum á fimmtudaginn.

Hér má finna tölfræði leiksins

VF-myndir: Hilmar Bragi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024