Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Góður rekstur í Leirunni - Sigurður endurkjörinn formaður
Miðvikudagur 7. desember 2011 kl. 11:06

Góður rekstur í Leirunni - Sigurður endurkjörinn formaður



Rekstur Golfklúbbs Suðurnesja gekk vel á árinu og skilaði tæpum 4 milljónum í hagnað en árið var viðburðaríkt og hápunktur sumarsins þegar Íslandsmótið í höggleik fór fram í Leirunni. Þetta kom m.a. fram á aðalfundi klúbbsins í golfskálanum í gærkvöldi. Sigurður Garðarsson var endurkjörinn formaður.

„Með ábyrgum rekstri og aðhaldssemi í öllu starfi klúbbsins hefur okkur tekist að snúa við blaðinu, þannig að rekstur klubbsins er farinn að geta borið endurnýjun á tækjum og minni háttar endurbætur á golfvelli og á aðstöðu. Enn er þó nokkuð í land með að klúbburinn geti hafist handa við ýmsar nauðsynlegar fjárfestingar, s.s. eins og vatnsöflun, vökvunarkerfi, uppbyggingu á nýjum flötum og teigum og mörgu fleiru sem hyggja þarf að á næstum árum. Til að ráðast í fjárfestingar af þeirri stærðargráðu þurfum við utanaðkomandi aðstoð en margir klúbbar hafa fengið slíka aðstoð frá sínum sveitarfélögum. Þótt aðstæður í rekstri sveitarfélaga gefi ekki tilefni til bjartsýni að svo stöddu erum við sannfærð um að ef við höldum áfram á sömu braut með ábyrgum rekstri, fjölgun klúbbfélaga og uppbyggingu í íþróttastarfinu, muni skilningur á mikilvægi starfs okkar aukast og leiða til þess að sveitarfélögin komi til liðs við okkur með stærri fjárfestingarverkefni í framtíðinni. Við munum á næstu misserum leggja mesta áherslu á að fjölga félögum og ekki síst börnum og unglingum,“ sagði formaðurinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Örlítil fækkun varð í fjölda leikinna hringja á Hólmsvelli í sumar eða úr 20.700 árið 2010 í 19.750 í sumar. Má þar kenna um ótíð í vor og í upphafi sumars. Aðsókn í mót í Leirunni var mjög góð og sérstaklega í Þ-mótaröðina sem er fyrir félagsmenn GS.

Karen Guðnadóttir var valinn kylfingur ársins en hún hefur bætt sig mikið sem kylfingur undanfarin ár og var nýlega valinn í afrekshóp Golfsambands Íslands. Hún varð klúbbmeistari og komst á verðlaunapall í síðasta mótinu á Eimskipsmótaröðinni í sumar.

Félagar í GS er nú um 500 og hefur staðið í stað undanfarin ár.

Nokkrar breytingar urðu á stjórn GS en hún er svona skipuð:
Sigurður Garðarsson, formaður.
Páll Ketilsson, varaformaður, Karitas Sigurvinsdóttir, gjaldkeri, Þröstur Ástþórsson, ritari, Davíð Viðarsson, Hafdís Ævarsdóttir og Heimir Lárus Hjartarson.

Í varastjórn eru Gylfi Kristinsson, Marinó Már Magnússon og Örn Ævar Hjartarson.

Um þrjátíu manns sóttu aðalfund GS í Leirunni.

Karen Guðnadóttir, kylfingur ársins hjá GS 2011. Að neðan má sjá þær Helgu Sveinsdóttur sem gekk úr stjórn í ár og Erlu Þorsteinsdóttur, golfþjálfara klúbbsins.