Góður Njarðvíkursigur í síðasta leik umferðarinnar
Njarðvíkingar innbyrtu nokkuð öruggan sigur þegar þeir tóku á móti liði Þórs Þorlákshafnar í Domino's í Ljónagryfjunni í gær, en leikurinn var sá síðasti í fimmtándu umferð Domino´s deildar karla í körfuknattleik.
Njarðvíkingar voru sterkara liðið í byrjun leiks en eftir fyrsta leikhluta var staðan 33-23. Þegar flautað var til hálfleiks skildu leikar 52-42. Njarðvíkingar voru slakari í þriðja leikhluta þar sem þeir skoruðu einungis 19 stig en bættu um betur í þeim síðasta og skoruðu 36 stig og sigruðu leikinn örugglega.
Stigahæstur í liði Njarðvíkinga var Terrell Vinson en hann var með 35 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar. Á eftir honum var Logi Gunnarsson með 24 stig og 5 fráköst. Þá var Maciek Baginski með 15 stig.
Leikurinn var sá síðasti fyrir bikarhelgina en næsta umferð í Domino´s deild karla fer ekki fram fyrr en þann 18. janúar.