Góður konudagssigur hjá Keflavíkurstúlkum gegn bikarmeisturum KR
Keflavíkurstúlkur hefndu fyrir tapið gegn KR í bikarúrslitunum sl. sunnudag með öruggum sigri í Toyota höllinni í Keflavík nú síðdegis. Keflavíkurstúlkur innbyrtu sannfærandi sigur 79-70 og var allt annað að sjá til þeirra núna.
Keflavík var yfir allan leikinn, 34-27 í hálfleik en KR stúlkur bitu aðeins frá sér í lokin og minnkuðu muninn í 3 stig á tímabili en síðan ekki söguna meir. Þær Birna Valgarðsdóttir (28 stig) og Bryndís Guðmundsdóttir (22) skoruðu 50 af 79 stigum Keflavíkur en baráttan var miklu betri í liðinu en í bikarúrslitunum þó svo þær tvær hafi að mestu séð um stigaskorið. Svava Ósk var næst í stigaskori með 11 stig, Halldóra Andrésdóttir var með 7, Marín Karlsdóttir 5 og Pálína Gunnlaugsdóttir sem vanalega hefur skorað meira í vetur skilaði aðeins 3 stigum en var þeim mun betri í vörn eins og ætíð.
Hildur Sigurðardóttir var að venju best hjá KR með 17 stig en Guðrún Þorsteinsdóttir, 15 og Suðurnesjamærin Margrét Kara Sturludóttir var með tólf stig.
Stjórn körfuknattleiksdeildar leysti Keflavíkurdömurnar út með blómum og huggulegheitum frá Blómavali í tilefni konudagsins. Stúlkurnar áttu það svo sannarlega skilið en þær sýndu það í dag að þær eiga fullt erindi í góða titilvörn. Ef Jóni Halldóri, þjálfara tekst að þjappa þeim saman þá er ekkert sem mælir á móti því að þær verji Íslandsmeistaratitilinn.
Pálína var illskeytt í sókninni. Hér koma KR stúlkur engum vörnum við.
Bryndís Guðmundsdóttir hefur verið stígandi í vetur og mun án efa koma sterk inn það sem eftir lifir vetrar og það getur skipt miklu fyrir Keflavík. Hér skorar hún tvö af 22 stigum sínum í leiknum.
Bless Kara, gæti Pálína verið að segja þegar hún er í þann mund að leggja boltann í körfu KR.
Hildur Sigurðardóttir, besti leikmaður KR sækir hér að körfu Keflavíkur.