Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Góður Keflavíkursigur en  Grindavík tapaði í toppslagnum
Fimmtudagur 6. nóvember 2008 kl. 22:32

Góður Keflavíkursigur en Grindavík tapaði í toppslagnum



„Þetta var flottur leikur fyrir áhorfendur og góður sigur hjá okkur. Það er alltaf gaman að innbyrða sigur í jöfnum leikjum,“ sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflvíkinga eftir frækinn sigur á spútnikliði FSU frá Selfossi í Toyota höllinni í Keflavík í kvöld. Lokatölur urðu 99-90 eftir framlengingu en gestirnir jöfnuðu með flautukörfu 86-86.

Það var mikið fjör á lokakafla venjulegs leiktíma en fjórar síðustu körfurnar hjá Fjölbrautaskólapeyjunum voru þristar og sú síðasta var ævintýraleg. Heimamenn voru mun sterkari í framlengingunni og tryggðu sér góðan sigur.
„Við vorum mjög slakir í fyrsta leikhluta en svo fórum við í gang og vorum góðir. Þeir hittu á köflum mjög vel en við létum það ekki á okkur fá. Þetta er allt að koma hjá okkur en við erum þó ekki enn búnir að fínstilla okkar leik. Við eigum helling inni,“ sagði Sigurður.
Gestirnir byrjuðu leikinn miklu betur og náðu góðu forskoti, 11-18 og 22-31 en Íslandsmeistararnir vöknuðu til lífsins í öðrum leikhluta og náðu að minnka muninn og jafna leikinn en í hálfleik var FSU með 3ja stiga forskot, 42-45. Keflvíkingar náðu forystu í þriðja leikhluta og náðu 9 stiga forskoti í blá lokin og virtust með unnin leik í lokin en ótrúlegur lokakafli hjá gestunum tryggði þeim jöfnu með flautukörfu í venjulegum leiktíma. Heimamenn áttu síðan framlenginguna og tryggðu sér níu stiga sigur.

Hörður Axel Vilhjálmsson er að koma gríðarlega sterkur inn í Keflavíkurliðið. Hann skoraði 24 stig og einu sinni tróð hann skemmtilega yfir einn útlendinginn hjá FSU. Stigin hans voru fjölbreytt, af öllum gerðum. Sigurður risi Þorsteinsson var sterkur að vanda og það munar um minna að hafa hann inn í teig. Hann skoraði 21 stig og tók tólf fráköst. Gunnar Einarsson (15 stig) og Jón Hafsteinsson (13 stig) voru traustir þó sá fyrrnefndi hafi ekki verið með góða nýtingu í þriggja stiga skotunum 2/12. Auglýsingastjórinn hjá VF fær leyfi á næstu dögum til að æfa löngu skotin.
Selfyssingar sýndu það að þeir eru með hörku lið og verða án efa í toppbaráttunni í vetur. Þeir eru með snjallan þjálfara, Brynjar Karl Sigurðsson en orðbragðið hans á bekknum eða réttara sagt við hliðarlínuna er oft svakalegt. En það fylgir svona fjöri og oft mátti sjá hann hundskamma leikmenn bæði inn á vellinum og á bekknum. Thomas Viglianco skoraði mest hjá FSU eða 21 stig, Tyler Caldwell var með 20 og Árni Ragnarsson 19.

Grindavík lék við KR á sama tíma en varð að lúta í gras í hörku leik þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í blálokin. Lokatölur 82-80. Munaði kannski minna um að Páll Axel Vilbergsson skoraði aðeins 12 stig. Þorleifur Ólafsson skoraði mest hjá UMFG eða 26 og Brenton Birmingham var með 19.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sigurður Þorsteinsson skorar tvö af stigum sínum í kvöld.

Gunnar Einarsson skoraði 15 stig og hér ratar boltinn í körfuna.

Gunnar Stefánsson og Sverrir Þór Sverrisson í baráttu undir körfu Selfyssinga.

Hörður Axel á leið í glæsilega troðslu...

...sællllll, á að ræða þetta eitthvað hérna í Toyota höllinni?

„Sverrir, viltu hjálpa mér aðeins hérna,“ gæti Vilhjálmur Steinars verið að segja.