Góður árangur Skákfélags Reykjanesbæjar
Skákfélag Reykjanesbæjar (SR) náði frábærum árangri á Íslandsmóti skákfélaga sem haldið var helgina 27. feb – 2. mars. Að sögn félaga er þetta besti árangur í manna minnum en félagið hefur tekið þátt í keppninni í 40 ár. 48 voru skráð til leiks með meira en 500 einstaklinga innanborðs.
SR A vann glæsilegan sigur í 2. deildinni. Mikil spenna var fram á síðustu stundu um hverjir yrðu hlutskarpastir. Fyrir síðustu umferð var SR-A efst með 22 vinninga og atti kappi við Taflfélag Garðabæjar-A sem var með 21,5 vinninga. Viðureignin þar á milli stóð í ljósum logum um miðbik skákanna og erfitt að sjá hvert stefndi, en að lokum vann SR-A stórsigur 5-1. Það gerði það að verkum að SR-A vann 2. deildina, með 27 vinninga, og Taflfélag Garðabæjar lenti að lokum í 4. sæti, með 22,5 vinninga og hleypti með því Skákfélagi Íslands-A upp fyrir sig. Munu því SR-A og Skákfélag Íslands keppa í hinni ógnarsterku 1. deild að ári, þar sem stórmeistarar eru á hverju strái.
SR B-liðið vann mjög öruggan sigur í 4. deildinni en félagið vann allar 7 viðureignir sínar mjög sannfærandi, fékk 33 vinninga af 42 mögulegum. Í fjórðu deildinni eru gefin 2 stig fyrir sigur og fékk liðið því 14 stig en liðin í 2 og 3 sæti fengu 11 og 9 stig, þar á eftir voru fimm lið með 8 stig. Má SR-B mjög vel við una og er liðið strax farið að undirbúa sig undir 3. deildina.
Finna má úrslitin og aðrar upplýsingar fyrir 2. deild hér og skákfréttir á skak.is.