Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Góður árangur Kefvíkinga í Taekwondo
Mánudagur 2. febrúar 2004 kl. 17:11

Góður árangur Kefvíkinga í Taekwondo

Í íþróttalífinu hér á Suðurnesjum hefur áherslan um árabil verið á körfubolta á veturna og fótboltann á sumrin. Íþróttaflóran er þó margbreytileg og leynast hér afreksmenn á fjölmörgum sviðum.
Til dæmis var annar hluti Bikarmóts Taekwondosambands Íslands haldið í Fjölnishúsinu í Reykjavík um síðustu helgi og sendi Taekwondo deild Keflavíkur fimm keppendur til leiks.

Æft hefur verið að kappi fyrir þetta mót og stóðu Keflvíkingar sig mjög vel og fengu 5 verðlaun og þar að auki var Tu Ngoc Vu valinn keppandi mótsins, en hann vann tvær greinar af þeim þremur sem hann keppti í, þar á meðal í sýningarformi þar sem bróðir hans, Danni Ngoc Vu fékk silfurverðlaun, en Tu fékk brons í bardaga. Þeir bræður stóðu sig gífurlega vel, og  stóðu vel fyrir sínu, enda hafa þeir æft vel og eiga þeir sannarlega lof skilið fyrir frammistöðuna.

Sandgerðingurinn Helgi Rafn Guðmundsson vann til gullverðlauna í bardaga annað bikarmótið sitt í röð, en helgina áður hafði helgi staðið sig með miklum ágætum á Norðurlandamótinu í Taekwondo sem fór fram í Finnlandi.
Þar tapaði Helgi úrslitaviðureigninni í unglingaflokki fyrir mjög sterkum Svía sem er tvöfaldur Norðurlandameistari og Helgi sagði að hafi verið gífurlega góður og erfiður andstæðingur.
„Ég átti í fullu fangi með hann, en hann hafði yfirhöndina lengst af bardaganum og endaði sem sigurvegarinn.“ Þetta var síðasta Norðurlandamót Helga í unglingaflokki, og fannst honum súrt að missa af tækifærinu til að ná gullinu.
„Ég hefði að sjálfsögðu viljað ná titlinum því fullorðinsflokkarnir eru auðvitað margfalt sterkari, en svona er þetta bara.“
Helgi bætir því við að hann hafi æft mikið undanfarið ár, bæði með Keflavík og landsliðinu, og stefni á fleiri mót og áframhaldandi velgengni.

Þá fór nýársmót Fjölnis fyrir 12 ára og yngri fram á laugardaginn þar sem tveir keppendur frá Keflavík tóku þátt, og hlaut Jón Bjarni Ísaksson bronsverðlaun í sýningarformi.
Þess að auki stóðu allir keppendur Keflavíkur sig vel, og voru sumir í mjög erfiðum flokki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024