Góður árangur hjá Suðurnesjastelpum á pæjumóti
Pæjumót Þormóðs Ramma – Sæbergs og KS fór fram um síðustu helgi. Sameinað lið Reynis og Víðis tók þátt í keppninni með fínum árangri. Að þessu sinni tóku 155 lið þátt í mótinu sem haldið var á Siglufirði. Leiknir voru ríflega 530 knattspyrnuleikir frá föstudagsmorgni fram á sunnudag og skoruð rúmlega 1.350 mörk af stúlkum á aldrinum 7-15 ára.
A-lið 5. flokks hjá Reyni/Víði lenti í 2.-4. sæti í riðlakeppninni en máttu sætta sig við 4. sætið á markatölu. B-lið 5. flokks var í 5. sæti í sínum riðli.
Í fjórða flokki náði A-liðið góðum árangri og lentu stelpurnar þar í 3. sæti og töpuðu þær aðeins einum leik á öllu mótinu, gegn Fylki. Í heildarkeppninni lentu þær svo í 9. sæti.
A-lið 3. flokks enduðu í 7.-8. sæti í mótinu og fengu einnig verðlaun sem prúðasta liðið. Elvar Grétarsson, þjálfari, var mjög sáttur við árangur flokkanna í mótinu og sagði í samtali við Víkurfrétti að allt hefði gengið ljómandi vel.
Grindvíkingar sendu einnig lið til keppni í 5.flokki og stóðu þær sig afar vel.
A-lið lenti í 1-2 sæti í sínum riðli en var með lakara markahlutfall en Þróttur. Aðeins munaði 1 marki en þær lendu svo í 5.-6. sæti ásamt Þór Akureyri . Þær skoruðu 15 mörk og fengu 1 á sig.
B-liðið stóð sig vonum framar og lentu í 2-4 sæti í riðlinum sínum en urðu í fjórða á markamun og lentu svo í 12. sæti í mótinu sem er góður árangur.
B-lið 4.flokks Keflavíkur lenti í öðru sæti í sínum flokki eftir 1-0 tap í úrslitaleik.
Þá lenti A-lið 5. flokks frá Keflavík í 12. sæti og B-liðið í fjórða sæti.
A-lið 4. flokks tapaði úrslitaleik um 3. sæti á hlutkesti hafnaði því einnig í 4. sæti.
Mynd: Fjórði flokkur Reynis/Víðis lenti í þriðja sæti á Pæjumótinu