Góður árangur hjá ÍRB
Sundfólk ÍRB tók þátt í Akranesleikunum sem haldnir voru í Jaðarsbakkalaug á Akranesi um síðustu helgi. Rúmlega 300 keppendur frá 13 félögum tóku þátt en tæplega 50 sundmenn frá ÍRB skráðu sig til leiks og gistu í Grundaskóla á meðan á mótinu stóð.
Árangur var mjög góður og bættu flest allir tímana sína og margir náðu að synda undir lágmörkum fyrir Aldursflokkameistarmót Íslands sem haldið verður á Akureyri í lok júní. ÍRB hlaut hinn eftirsótta Brosbikar sem veittur er því liði sem sýnir prúða framkomu, jafnt í sundlauginni sem í gisti- og mataraðstöðu. Mótið var mjög skemmtilegt, sundmenn okkar voru til fyrirmyndar í alla staði og veðrið lék við keppendur alla helgina.