Góðir sigrar hjá Grindavík og Njarðvík
Grindavík og Njarðvík tryggðu sér sigur í gær í Subway-deild karla í körfuknattleik en bæði lið höfðu verið undir þegar fjórði leikhluti fór af stað. Njarðvíkingar loða sem fastast við toppinn og eru aðeins einum sigri frá toppliði Vals en Grindvíkingar eru ennþá í níunda sæti.
Grindavík - Álftanes 87:84
Grindvíkingar tóku á móti Álftanesi í Smáranum í gær og það voru gestirnir sem byrjuðu leikinn betur. Eftir fyrsta leikhluta var munurinn átta stig (19:27) en með góðum lokaspretti í öðrum leikhluta minnkuðu heimamenn leikinn niður í þrjú stig (42:45).
Álftanes jók muninn á nýjan leik eftir hálfleik og voru komnir með tíu stiga forystu um miðjan þriðja leikhluta (51:61) og mestur varð munurinn fimmtán stig (52:67). Undir lok fjórðungsins munaði tólf stigum (60:72) en Valur Orri Valsson átti síðasta orðið áður en fjórði leikhluti fór af stað og setti niður þrist til að minnka muninn í níu stig (63:72).
Grindvíkingar sýndu mikla baráttu í fjórða leikhluta og voru ekki lengi að minnka muninn. Dedrick Basile sá um að jafna leikinn en hann skoraði tvo þrista, tvist og úr einu vítakasti í upphafi fjórða leikhluta til að breyta stöðunn í 72:72. Leikurinn var í járnum eftir það og liðin skiptust á að leiða en fjórir þristar í lokin tryggðu Grindavík sigurinn. Ólafur Ólafsson setti tvo og þeir Kristófer Gylfason, Daniel Mortensen og Deandre Kane einn hver. Lokatölur 87:84.
Ólafur Ólafsson fór fyrir sínum mönnum í gær og skoraði 23 stig, Daniel Mortensen var með átján, Deandre Kane sextán, Julio De Assise tíu og Dedrick Basile níu. Þá var Kristófer Gylfason með sjö, Valur Orri þrjú og Arnór Tristan Helgason eitt stig.
Njarðvík - Haukar 81:77
Leikur Njarðvíkur og Hauka fer seint í sögubækurnar fyrir gæði en hvorugt liðið náði að sýna sínar bestu hliðar í gær.
Mikið jafnræði var á með liðunum og hvorugt náði að slíta sig frá hinu. Eftir jafnan fyrri hálfleik leiddu heimamenn með einu stigi (39:38).
Áfram hélt barningurinn og þó Njarðvíkingar væru oftast með örlítið forskot á Haukana voru það gestirnir sem leiddu með tveimur stigum fyrir lokaleikhlutann (66:68).
Chaz Williams kom Njarðvík yfir í upphafi fjórða leikhluta þegar hann setti niður þrist og aftur voru heimamenn komnir í forystu. Þeir héldu forskotinu nánast allan fjórðunginn og höfðu að lokum betur (81:77).
Chaz Williams var stigahæstur heimamanna með 28 stig og næstur honum kom Mario Matasovic með fimmtán. Nýjasti leikmaður Njarðvíkingar, Dwayne Lautier-Ogunleye, var með ellefu stig og Þorvaldur Orri Árnason tíu.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Ljónagryfjunni í gær og myndasafn frá honum er neðst á síðunni.