Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Góðir grannar
Laugardagur 10. mars 2012 kl. 14:26

Góðir grannar

Ómar Jóhannsson, markvörður og starfsmaður í Fríhöfninni sparkar pennanum fram á ritvöllinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Um síðustu helgi var haldið hér í Reykjanesbæ eitt stærsta, ef ekki það stærsta, körfuboltamót landsins. Um 1100 börn tóku þátt í mótinu með tilheyrandi fylgdarliði í þjálfurum, fjölskyldumeðlimum og ógrynni af aðstoðarfólki sem lagði hönd á plóg. Umtalað er að virkilega vel hafi tekist til og allir haldið heim glaðir eftir vel heppnaða körfuboltahelgi. Það sem gerir þetta vel heppnaða mót jafnvel enn ánægjulegra er hið góða samstarf á milli körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur. Fornir fjendur sameinast þarna eina helgi um að halda glæsilegasta körfuboltamót landsins og gera það með sóma. Sunddeildir félaganna hafa verið í samstarfi síðustu ár með góðum árangri og spurning hvort að fleiri deildir geti ekki hjálpast að með hag beggja fyrir brjósti.

Sumarið 2002 spilaði ég mitt fyrsta sumar með meistaraflokki Keflavíkur. Njarðvík spilaði þá í 2. deild (C-deild) á meðan við spiluðum í efstu deild. Um mitt sumar sagði góður Njarðvíkingur við mig að það liti út fyrir að við myndum spila í sömu deild á næsta ári þar sem okkur gekk ekki sem best á meðan Njarðvík barðist í toppnum í sinni deild. Ég svaraði því að ef við spiluðum einhvern tíma í sömu deild þá myndi ég skipta yfir í Njarðvík. Það fór svo að við féllum en Njarðvík endaði í 3. sæti en 2 lið komast upp um deild þannig að ég slapp með skrekkinn. Seinna um haustið sameinuðust svo 2 lið sem spiluðu í 1. deild þannig að Njarðvík fór upp og við spiluðum í sömu deild 2003. Því miður féll loforð mitt um að skipta um lið á tæknilegu smáatriði þannig að ekkert varð af félagsskiptunum.

Ég er mikill Keflvíkingur og hef gaman af þeim ríg sem er á milli Keflavíkur og Njarðvíkur. Þessi rígur gerir leikina á milli félaganna skemmtilegri þar sem meira er undir en bara stig fyrir unninn leik. Það sést best á mætingunni og stemningunni sem myndast í grannaslögunum í körfunni, hvort sem það er í deildar-, bikar- eða úrslitakeppni. Í fótboltanum spilum við sjaldan við Njarðvík þar sem við erum ekki í sömu deild en við eigum okkur aðra „óvini“ sem maður elskar að hata. Lið sem maður þolir ekki en getur ekki verið án vegna þess að leikirnir við þau eru upp á meira en 3 stig. Það getur verið nágrannarígur eða annar sögulegur rígur. Einhver saga sem gerir leikina skemmtilegri og meira spennandi en venjulega leiki, bæði fyrir þá sem spila og þá sem fylgjast með.

Rígurinn á samt aldrei að ná lengra en leikurinn sem spilaður er þá stundina. Ég á góða vini í liðum sem ég geri allt til að vinna. Við getum verið vinir fyrir og eftir leik en ekki á meðan honum stendur. Félög geta grætt svo mikið á því að eiga gott samstarf við önnur lið. Þannig er það líka oftast en því miður truflar sagan stundum samstarf á milli liða. Þess vegna er ennþá ánægjulegra að sjá Nettómótið heppnast jafn vel og það gerði því ef að Keflavík og Njarðvík geta átt gott samstarf er allt hægt.