Góð uppskera hjá Reyni
Reynismenn héldu lokahóf sitt um helgina og fögnuðu ríkulegri uppskeru eftir tímabilið í 3. deild karla í knattspyrnu en Reynir varð deildarmeistari og leikur því í annarri deild á næsta ári.
Kristófer Páll Viðarsson var markahæsti leikmaður liðsins en hann varð næstmarkahæstur í 3. deildinni í ár með sautján mörk skoruð. Kristófer var einnig valinn leikmaður ársins og leikmaður ársins að mati stuðningsmanna Reynis.
Jökull Máni Jakobsson var valinn sá efnilegasti en hann var 21 sinni í byrjunarliði í deildinni og skoraði eitt mark.