Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þriðjudagur 10. júlí 2001 kl. 11:03

Góð tilfinning að vinna einn besta áhugamann heims

Örn Ævar Hjartarson, einn landsliðmanna Íslands í golfi segir það hafa verið ánægjulega tilfinningu að sigra Luku Donald, besta áhugamann heims í golfi í lokaumferð Evrópumóts lansliða í golfi í Svíðþjóð sl. helgi.Ragnar Ólafsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari sagðist hafa verið viss um að Englendingar myndu raða Luke Donald upp númer eitt í röðinni fyrir leikinn gegn Íslandi um bronsverðlaunin og hann hafi ákveðið að setja Örn Ævar Hjartarson, ferskan eftir sigur á Íranum daginn áður, gegn honum. Það kom á daginn og sagði Ragnar við Örninn að sigur gegn besta áhugamanni heims væri eitthvað sem hann þyrfti setja á sína afrekaskrá.
Örn Ævar byrjaði betur í leiknum og var með tveggja holu forskot eftir sex holur. Donald vann 9. holu þannig að munurinn var ein hola þegar leikurinn var hálfnaður. Jafnt var með þeim félögum fram á 13. holu sem Englendingurinn snjalli vann. Jafnt var á 14., 15. og 16. holu en á þeirri 17. fékk Suðurnesjamaðurinn góðan fugl og náði einnar holu forskoti. Báðir fengu þeir par á síðustu holunni, Örn með því að setja niður tæplega metralangt lokapútt, 1:0.
„Úff, þetta var svakalegt en ljúft að leggja kappann. Maður þurfti á öllu sína besta að halda til að vinna. Ég var með fimm fugla og hann fjóra í hringnum þannig að þetta var hörkugolf“, sagði Örn sem að venju var hógværðin uppmáluð. Margir kylfingar, þar á meðal Gary Wolstenholm, leikreyndasti leikmaður Englendinga og mótsins kom sérstaklega til að óska Erni til hamingju með sigurinn á Donald. „Frábær leikur“, sagði hann við Örn. Margt fólk við skortöfluna var að ræða þennan sigur Arnar á Donald.
„Þetta var jafn leikur og við lékum báðir vel. Örn gaf ekkert eftir og sigurinn gat lent hvorum megin sem var en hann hélt haus og vann. Ég heyrði það eftir níu holur að hann ætti vallarmetið á „Nýja vellinum“ í St. Andrews. Hann hlýtur að veri besti íslenski kylfingurinn enda lék hann vel“, sagði Donald sem hefur verið meðal þriggja bestu kylfinga í háskólagolfinu í Bandaríkjunum. Hann leikur með Stóra-Bretlandi í Walker keppninni gegn Bandaríkjunum síðar í sumar en mun gerast atvinnumaður eftir það. „Ég ætla að reyna fyrst við bandarísku mótaröðina í haust en ef ég næ ekki að vinna með þátttökurétt fyrir næsta ár fer ég til Evrópu og mun leika þar á næsta ári“, sagði Luke Donald sem er hægur og ljúfur piltur sem margir spá miklum fram í golfheimi atvinnumanna.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024