Góð þátttaka á Pure Sweat-æfingabúðum
Pure Sweat-æfingabúðir hófust hjá körfuknattleiksdeild Grindavíkur í byrjun þessarar viku en Pure Sweat-þjálfarinn James Purchin kom til landsins til þess að halda tvennar körfuboltabúðir í Grindavík nú í ágúst. Purchin til halds og trausts á námskeiðinu er Danielle Rodriguez, leikmaður og þjálfari hjá Grindavík.
Rodrigues gekk til liðs við Grindavík í vor en hún lék með Stjörnunni og KR í efstu deild á Íslandi frá 2016 til 2020. Hún hefur starfað sem þjálfari undanfarin ár og var aðstoðarþjálfari hjá San Diego síðasta vetur, þá var Rodrigues einnig aðstoðarþjálfari hjá báðum meistaraflokkum Stjörnunnar tímabilið 2020–2021.
Æfingabúðirnar eru tvískiptar, fyrri hluti búðanna ber yfirskriftina „að skora“ en sá seinni „leikskilningur“. Farið er yfir ólíka þætti leiksins með því að horfa á myndskeið í byrjun dags áður en þátttakendur færa sig yfir á vellina. Búðirnar eru fyrir alla fædda 2010 og síðar og er þátttakendum skipt í hópa eftir aldri.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Daniella að þátttaka á æfingabúðunum hafi farið langt fram úr væntingum og færri komist að en vildu, því hafi verið ákveðið að halda aðrar Pure Sweat-æfingabúðir í næstu viku og er skráning hafin hjá körfuknattleiksdeild Grindavíkur.
Hér er hægt að smella á þennan tengil að fara á skráningarsíðuna.